Ísland mætti Hvíta-Rússlandi í fyrsta leiknum í úrslitakeppni Evrópumóts 21-árs landsliða í knattspyrnu í Árósum í Danmörku klukkan 16.00. Hvíta-Rússland hafði betur 2:0 en markalaust var í hálfleik.
Kolbeinn Sigþórsson fékk tvö góð færi til að koma liðinu yfir áður en Hvít-Rússar fengu vítaspyrnu á 76. mínútu. Í kjölfarið var Aroni Einari Gunnarssyni vikið af velli og Hvít-Rússar nýttu spyrnuna. Eftir það var vörn íslenska liðsins fámenn og þeir bættu við öðru marki á 87. mínútu.
Það má segja að þolinmæði hafi einkennt leik Hvít-Rússa sem voru mjög þéttir í varnarleik sínum og gáfu fá færi á sér. Hraða virtist vanta í sóknarleik Íslands, sérstaklega í fyrri hálfleik en Ísland var með yfirhöndina þangað til Hvít-Rússar skoruðu fyrra markið.
Ísland er því án stiga í A-riðli eftir þennan fyrsta leik og að auki verður Aron Einar í banni í næsta leik sem er gegn Sviss á þriðjudaginn klukkan 16.00.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Lið Íslands: Haraldur Björnsson - Eggert Gunnþór Jónsson, Jón Guðni Fjóluson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Hjörtur Logi Valgarðsson - Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Bjarni Þór Viðarsson - Arnór Smárason, Kolbeinn Sigþórsson, Jóhann Berg Guðmundsson.
Varamenn: Óskar Pétursson (m), Arnar Darri Pétursson (m), Skúli Jón Friðgeirsson, Elfar Freyr Helgason, Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andrés Már Jóhannesson, Birkir Bjarnason, Guðmundur Kristjánsson, Rúrik Gíslason, Almarr Ormarsson, Alfreð Finnbogason, Björn Bergmann Sigurðarson.
Lið Hvíta-Rússlands: Aleksandr Gutor, Stanislav Dragun, Sergei Politevich, Dmitri Baga, Mikhail Sivakov, Nikita Bukatkin, Aleksandr Perepechko, Andrei Voronkov, Denis Poljakov, Oleg Veretilo, Jegor Filipenko.
Varamenn: Sergei Matvejchik, Juri Ostroukh, Maksim Skavish, Artyom Gomelko, Pavel Nekhajchik, Juri Ryzhko, Dmitri Rekish, Mikhail Gordejchuk, Vitali Gajduchik, Evgeni Savostjanov, Dmitri Guschenko, Vladimir Khvoshchjnski.