Tómas Ingi Tómasson aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins í knattspyrnu sagði við mbl.is á æfingu landsliðsins í morgun að nú væru menn farnir að undirbúa sig af krafti fyrir leikinn gegn Sviss sem fram fer á þriðjudaginn.
,,Við erum auðvitað svekktir með úrslitin í gær. Mér fannst við hafa góð tök á leiknum en svo gerðist atvik sem breytti leiknum og eyðilagði hann fyrir okkur. En nú verðum við bara að mæta ákveðnir í leikinn á móti Sviss og við förum í þann leik eins og alla aðra ti að vinna. Sviss er allt öðru vísi andstæðingur en Hvíta-Rússland. Svisslendingar eru með mjög gott lið,“ sagði Tómas Ingi.