Glæsilegur sigur Íslands á Danmörku, 3:1, í Álaborg í kvöld var aðeins of lítill til að koma Íslandi í undanúrslit Evrópumóts 21-árs landsliða í knattspyrnu. Hjörtur Logi Valgarðsson kom Íslandi í 3:1 í uppbótartíma og liðið fékk tvö tækifæri til að skora fjórða markið sem hefði komið Íslandi áfram.
Sviss vann Hvíta-Rússland, 3:0, og fékk 9 stig í efsta sætinu. Hvíta-Rússland, Ísland og Danmörk fengu 3 stig hvert en Hvít-Rússar fara áfram á bestu innbyrðis markatölu liðanna þriggja. Þeir voru með 3:2, Ísland var með 3:3 og Danir með 3:4. Eitt mark enn hefði komið Íslandi áfram.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Lið Íslands: Haraldur Björnsson - Eggert Gunnþór Jónsson, Jón Guðni Fjóluson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Hjörtur Logi Valgarðsson - Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason - Rúrik Gíslason (fyrirliði), Kolbeinn Sigþórsson, Jóhann Berg Guðmundsson.
Varamenn: Óskar Pétursson (m), Arnar Darri Pétursson (m), Skúli Jón Friðgeirsson, Elfar Freyr Helgason, Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andrés Már Jóhannesson, Bjarni Þór Viðarsson, Arnór Smárason, Guðmundur Kristjánsson, Almarr Ormarsson, Alfreð Finnbogason, Björn Bergmann Sigurðarson.
Lið Danmerkur: Mikkel Andersen - Daniel Wass, Mathias Jörgensen, Andreas Bjelland (fyrirliði), Nicolai Boilesen - Christian Eriksen, Kasper Povlsen, Mike Jensen - Bashkim Kadrii, Nicki Bille Nielsen, Nicolai Jörgensen.