Eyjólfur Sverrisson þjálfari íslenska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu sagði á blaðamannafundi eftir sigurinn á Dönum í kvöld, 3:1, í Álaborg að vissulega væru menn svekktir yfir því að hafa ekki farið áfram en jafnframt stoltir af liðinu.
„Við erum afar stoltir, liðið okkar er frábært. Það eitt að vera í þessari keppni er með ólíkindum fyrir svona fámennt ríki. Þjóðin er stolt af liðinu og við hlökkum til framtíðarinnar. Okkur vantaði aðeins eitt mark enn til að fara áfram og það eru að sjálfsögðu vonbrigði. Ég hafði á tilfinningunni að áætlun okkar gæti komið okkur áfram en verkefnið var erfitt," sagði Eyjólfur.
"Við urðum að vera þolinmóðir og reyna að komast marki yfir. Þar með yrðu Danir að koma framar, og þar með myndu opnast svæði og tækifæri fyrir okkur. Leikurinn þróaðist einmitt svona og við erum ánægðir með það. Markvörður þeirra varði nokkrum sinnum mjög vel og við sýndum og sönnuðum að við ættum að heima í þessari keppni," sagði Eyjólfur, sem var rekinn af varamannabekknum í byrjun síðari hálfleiks fyrir kröftug mótmæli.
„Það voru miklar tilfinningar í gangi. Ég sýndi mínar tilfinningar sem leikmaður og hika ekki við að gera það sem þjálfari. Það er hluti leiksins," sagði Eyjólfur um það atvik.
"Leikmenn okkar eru að þroskast og við eigum stóran hóp ungra og hæfileikaríkra stráka sem þrá að ná langt. Þeir eru með frábært hugarfar, sem getur gert þá að toppmönnum. Þeir leggja alltaf geysilega hart að sér og íslenskir leikmenn sýna alltaf mikinn karakter.
Okkar leikmenn hafa lært mikið í þessari keppni. Nú vita þeir hvernig á að bregðast við í svona stórum leikjum. Þeir þurfa að ræða við blaðamenn, stundum tvisvar á dag, og það var mikil spenna í byrjun því pressan var mikil. Við höfðum bara þrjá daga til að búa okkur undir keppnina, sem var auðvitað of lítið. Við hefðum náð lengra með meiri undirbúningi og smá heppni," sagði Eyjólfur Sverrisson.