Kolbeinn Sigþórsson framherji íslenska U21 árs landsliðsins segir að liðið hafi ekki sýnt hvað það getur á Evrópumótinu fram að þessu en vonandi breytist það í leiknum gegn Dönum í kvöld.
,,Fyrir okkur er mikilvægt að sýna hvað í liðinu býr. Við þurfum að skora nokkur mörk og vonandi dettum við niður á draumaleik á móti Dönunum,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson við mbl.is.
Leikur Dana og Íslendinga hefst á leikvanginum í Álaborg klukkan 18.45 að íslenskum tíma. Íslendingar eiga veika von um að komast áfram í undanúrslitin en til þess að svo verði þarf þriggja marka sigur á móti Dönum og að Svisslendingar hafi betur á móti Hvít-Rússum.