Hvað ef? Þetta er yfirleitt stærsta spurningin í fótboltanum. Hvað ef Kolbeinn hefði skorað úr öðru hvoru dauðafæranna gegn Hvít-Rússum, í stað þess að þeir næðu undirtökunum með vítaspyrnunni og rauða spjaldinu?
Þá væri ekki hálf þjóðin á bömmer yfir stiga- og markaleysi íslenska 21-árs landsliðsins á Evrópumótinu í Danmörku. Þá væru hinsvegar allir að fara á límingunum yfir hreinum úrslitaleik við Dani í Álaborg í kvöld.
Eftir tvo ósigra strákanna á Jótlandi eru uppi alls kyns raddir um áfall, vonbrigði, slælegan undirbúning, naflaskoðun, ofmat, ofurvæntingar, og allt þar á milli. Rétt eins og Ísland hafi fyrirfram verið sigurstranglegasta liðið í keppninni.
En hvað gerðist eiginlega? Lykilleikurinn gegn Hvít-Rússum tók aðra stefnu en útlit var fyrir á síðasta stundarfjórðungnum. Lukkan var á bandi þeirra hvít-rússnesku, sem nú slást af alvöru um að fara áfram, rétt eins og íslenska liðið hefði gert með sigri. Svisslendingar reyndust síðan ofjarlar okkar manna og við munum aldrei fá að vita hvernig sá leikur hefði þróast ef íslenska liðið hefði mætt í hann með þrjú stig í farteskinu.
Svona stutt er á milli hláturs og gráts í íþróttunum. Hún er afar þunn, línan sem skilur að hetjurnar og skúrkana. Okkar efnilegu fótboltamenn urðu ekki að ofmetnum skussum á einni nóttu.
Grein Víðis í heild er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.