Danir eru í sárum

Íslenskur fögnuður í Álaborg í gærkvöld.
Íslenskur fögnuður í Álaborg í gærkvöld. mbl.is/Hilmar Þór

Danir eru í sárum eftir að hafa tapað fyrir Íslendingum í úrslitakeppni Evrópumóts U21 ára liða í Álaborg í gær. Danir höfnuðu í neðsta sæti A-riðilsins en þeir fengu 3 stig eins og Íslendingar og Hvít-Rússar sem komust í undanúrslitin ásamt Svisslendingum.

,,Ég er alveg niðurbrotinn. Ég var búinn að stilla mig inn á það að komast áfram í keppninni,“ sagði Bashkim Kadrii, sem skoraði mark Dana í leiknum gegn Íslendingum.

,,Við reiknuðum alls ekki með þessu og ég er alveg eyðilagður maður. Ég var ekki búinn að gera ráð fyrir því að þurfa að yfirgefa hótelið,“ sagði Nicky Bille Nielsen framherji Dana.

,,Við fengum mikið sjálfstraust eftir sigurinn á Hvít-Rússum og mér fannst allt ganga vel hjá okkur í fyrri hálfleik. Við stjórnuðum leiknum. Á augabragði í seinni hálfleik lentum við 2:0 undir og ég trúi því bara ekki að við séum úr leik,“ sagði Christian Eriksen, skærasta stjarna Dana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert