Georgi Kondratjev, þjálfari hvít-rússneska 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, sagði á fréttamannafundi í Danmörku í dag að Hvít-Rússar væru Íslendingum afar þakklátir.
Ísland vann Danmörku 3:1 í lokaumferð riðlakeppninnar á meðan Hvít-Rússar töpuðu 0:3 fyrir Sviss. Þessi úrslit tryggðu Hvít-Rússum sæti í undanúrslitunum þar sem þeir mæta Spánverjum á morgun. Ísland hefði farið áfram með einu marki meira, og Danir með því að ná í jafntefli.
„Ég sagði alltaf að riðillinn væri mjög jafn. Þegar við vorum 0:2 undir gegn Sviss á laugardaginn vissum við að þann leik ynnum við ekki. Við fengum því góða gjöf frá Íslendingum og getum ekki annað en sagt við þá: Kærar þakkir. Nú þurfum við að fara yfir Svissleikinn og koma skikki á miðjuna hjá okkur því þar stóðum við okkur ekki," sagði Kondratjev.
Hvít-Rússar gerðu jafntefli, 1:1, við Spánverja í vináttuleik í mars en það kæmi verulega á óvart ef þeim tækist að standa í firnasterku liði Spánverjanna á morgun.