Þreytulegt jafntefli Englendinga og Frakka

Englendingar og Frakkar skildu jafnir, 1:1, í fyrsta leik D-riðils á Evrópumótinu í knattspyrnu en liðin áttust við í Donetsk í Úkraínu.

Miðvörðurinn Joleon Lescott kom Englendingum yfir á 30. mínútur þegar hann skallaði í netið af stuttu færi eftir vel útfærða aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Níu mínútum síðar jafnaði Samir Nasri metin fyrir Frakka og þar við sat.

Þokkaleg tilþrif sáust í fyrri hálfleik en síðari hálfleikurinn var drepleiðinlegur þar sem Englendingar pökkuðu í vörn og hugsuðu fyrst og fremst um að halda fengnum hlut.

Bein textalýsing frá leiknum:

90+3 Leiknum er lokið með 1:1 jafntefli.

90. Theo Walcott leysir Danny Welbeck af hólmi. Uppbótartíminn eru þrjár mínútur.

88. Englendingar voru aðgangsharðir í einni af fáum sóknum sínum í seinni hálfleik en Mexes náði að bægja hættunni frá á elleftu stundu.

83. Frakkar gera tvöfalda skiptingu. Cabaye og Maloduda fara af velli en inná koma Ben Arga og Marvin Martin. Frakkar eru líklegri en Englendingar til að skora sigurmarkið.

76. Englendingar gera tvöfalda skiptingu. Chamberlain fer af velli og Deofe leysir hann af hólmi og Jordan Henderson kemur inná fyrir Scott Parker.

70. Englendingar eru komnir í skotgrafirnar og hugsa nú fyrst og fremst um að verjast. Þeim gengur illa að halda boltanum innan liðsins. Frakkarnir hafa ekki náð að opna vörn Englendinga sem er fjölmenn þessar mínúturnar.

65. Karim Benzema átti þrumuskot rétt utan vítateigs, hans fyrsta skot í leiknum, en Joe Hart var vandanum vaxinn og greip boltann af öryggi.

53. Steven Gerrard fellur rétt utan vítateigslínuna eftir viðskipti við varnarmann Frakka. Englendingar heimta aukaspyrnu en fá ekki. Annars er lítið að gerast í leiknum þessa stundina. Áhorendum leiðist hins vegar ekki. Þeir taka bylgjuna góðu.

46. Síðari hálfleikur er hafinn. Liðin eru óbreytt.

45.+1. Hálfleikur. Englendingar gerðu vel í að komast yfir en þeim var grimmilega refsað fyrir að sofna á verðinum í vörninni.

45. Benzema kemst upp að marki Englands hægra meginn og tekur skot úr þröngu færi en Hart ver í horn.

39. MARK! Staðan er 1:1. Englendingar gefa Samir Nasri allt of langan tíma til að athafna sig fyrir utan teiginn. Hann þakkar pent fyrir þessa litlu pressu og hamrar boltann í nærhornið framhjá félaga sínum hjá City, Joe Hart.

35. Nú á Samir Nasri góða aukaspyrnu inn á teig Englands frá hægri. Alou Diarra nær hörkuskalla á markið en Joe Hart ver boltann. Diarra fær svo annan skalla strax á eftir en boltinn framhjá. Vel varið hjá Hart.

30. MARK! Staðan er 0:1. Steven Gerrard á frábæra aukaspyrnu inn á teiginn frá hægri. Joleon Lescott hefur betur í baráttunni við Alou Diarra og stangar boltann í netið af markteig. Frábært mark hjá Englandi.

23. Leikurinn er ekkert leiftrandi hraður. England spilar skipulagðan og agaðan varnarleik og beitir skyndisóknum. Það hefur gengið ágætlega hingað til. Young, Welbeck og Uxinn eru að ná vel saman frammi hjá Englandi.

15. KLÚÐUR! Maður var varla búinn að sleppa orðinu þegar England fær besta færi leiksins. Ashley Young á frábæra stungusendingu á James Milner sem fer framhjá Lloris í markinu en skýtur í hliðarnetið á galtómu markinu.

14. Þessi byrjun lofar ekki góðu fyrir England. Það ætlar greinilega að verjast duglega eins og Roy Hodgson einum er lagið. Frakkar stýra leiknum algjörlega á meðan England kemur ekki tveimur sendingum á milli manna.

11. Samir Nasri byrjar leikinn ágætlega. Nú á hann fínt skot fyrir utan teig sem strýkur hliðarnetið. Joe Hart var þó alveg með þetta varið ef boltinn hefði farið á rammann.

10. Það opnast allt hægra meginn hjá Englandi þar sem Frank Ribery fær boltann og æðir að marki Englands. Hann er aftur á móti alltof seinn að gefa boltann en vinnur hornspyrnu. Joe Hart missir boltann úr höndunum eftir hornið en Lescott hreinsar frá.

5. Samir Nasri vippar boltanum inn fyrir vörn Englands glæsilega. Karim Benzema vinnur hornspyrnu í baráttu við John Terry sem bjargar í horn. Ekkert verður úr því.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Dómari leiksins er Ítalinn Nicola Rizzoli en hann starfar sem arkitekt þegar hann er ekki að dæma fótboltaleiki.

0. Alex Oxlade-Chamberlain er sjötti yngsti maðurinn í sögunni til að byrja leik á EM í fótbolta en hann er 18 ára og 301 dags gamall. Wayne Rooney, sem er í banni í dag, er  yngsti Englendingurinn til að byrja leik á EM og sá næstyngsti í sögunni en Roony var 69 dögum yngri en Uxinn þegar hann byrjaði gegn Frakklandi á EM 2004.

0. Frakkar hafa tvisvar sinnum orðið Evrópumeistarar en það gerðu þeir á heimavelli árið 1984 og aftur í Belgíu og Hollandi árið 2000. Frakkland er það lið sem síðast tókst að vinna EM á heimavelli. Þá var forseti UEFA, Michel Platini, skærasta stjarna Frakklands.

0. England hefur aldrei unnið EM í fótbolta og heldur aldrei komist í úrslitaleikinn. Liðið var þó nálægt því á heimavelli 1996 en tapaði auðvitað í vítaspyrnukeppni gegn Þýskalandi eins og frægt er orðið. Besti árangur Englands á EM er þriðja sætið árið 1968.

0. Laurent Blanc, þjálfari Frakka, sagði fyrir leikinn að Englendingar vildu alltaf vinna Frakka. Eflaust mikið til í því.

0. Það er yfir 30 gráðu hiti í Donetsk en Roy Hodgson ætlar ekki að nota veðrið né aðra hluti sem afsökun fyrir slöku gengi eins og hann sagði í gær.

0. Það er ekki margt sem bendir til þess að England vinni þennan leik sé rýnt í tölfræðina. England hefur aldrei unnið fyrsta leik sinn á EM og þá hefur liðið ekki unnið Frakkland í 15 ár eins og við sögðum ykkur frá fyrr í dag.

0. Leikurinn fer fram á Donbass Arena í Donetsk í Úkraínu sem er heimavöllur Shakhtar Donetsk. Leikvangurinn er glænýr, byggður árið 2009, og er allur hinn glæsilegasti. Það er heimamaðurinn og auðjöfurinn Rinat Akhmetov sem stendur á bakvið Shakhtar en hann byggði völlinn fyrir sitt lið. Hann tekur 52.504 í sæti en glæsilegar myndir af honum hérna: Donbass að degi tilDonbass að kvöldlagií stúkunni.

0. Það hefur mikil umræða verið um að sex Liverpool-menn séu í enska hópnum eftir skelfilegt tímabil hjá liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Í byrjunarliðinu í dag eru þó aðeins tveir leikmenn Liverpool eins og frá Manchester United en Englandsmeistarar Manchester City eiga þrjá fulltrúa í byrjunarliðinu.

0. Það kemur heldur lítið á óvart í byrjunarliði Frakka. Alou Diarra var að glíma við meiðsli en er klár en Yann M'Vila virðist ekki vera klár í slaginn. Benzema hefur verið sjóðheitur á tímabilinu og reikna margir með honum sem markahæsta manni keppninnar.

0. Byrjunarliðin eru klár. Hodgson er hvergi banginn og hendir Uxanum, Alex Oxlade-Chamberlain, í byrjunarliðið. Það var annaðhvort hann eða Stewart Downing á vinstri kantinn. Fyrir utan það kemur ekkert á óvart í byrjunarliði Englands.

Frakkland: (4-5-1) Hugo Lloris; Mathieu Debuchy, Adil Rami, Philipe Mexes, Patrice Evra; Samir Nasri, Yohan Cabaye, Alou Diarra, Florent Malouda, Franck Ribery; Karim Benzema.

England: (4-4-2) Joe Hart; Glen Johnson, John Terry, Joleon Lescott, Ashley Cole; James Milner, Gerrard, Parker, Oxlade-Chamberlain; Ashley Young, Danny Welbeck.

mbl.is

Bloggað um fréttina

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin