Viktor Kassai og hans samstarfsmenn sem dæmdu viðureign Úkraínu og Englands í gær dæma ekki fleiri leiki á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu. Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, hefur staðfest það og harmar þau þau mistök sem Kassai og félagar gerðu í leiknum í gær.
Úkraínumenn skoruðu mark í leiknum við Englendinga en Kassai og aðstoðarmenn hans sáu ekki ástæðu til þess að dæma markið gott og gilt, þó var einn í mjög góðri aðstöðu til þess að sjá þegar boltinn fór vel inn fyrir marklínuna áður en varnarmaður enska landsliðsins spyrnti knettinum frá markinu.
„Mönnum urðu á mistök og það er einfaldlega mannlegt. Ég óska þess að mistökin hafi ekki átt sér stað en dómarar eru mannlegir eins og aðrir,“ sagði Collina í dag þegar ákveðið var að senda Ungverjann heim fyrir átta liða úrslitin á EM.