Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þjóðverja, var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna í leiknum gegn Grikkjum á Evrópumótinu í knattspyrnu í kvöld. Þjóðverjar fögnuðu 4:2 sigri og eru þar með komnir í undanúrslitin.
„Þetta var frábær frammistaða hjá liðinu og við erum komnir í undanúrslit á EM í fjórða skiptið í röð. Við getum verið stolt af liðinu. Það var klárt að Grikkir gætu gert eitthvað úr engu. Við lögðum upp með að skora snemma en það tókst ekki. Það sló hins vegar mína menn ekkert út af laginu. Þeir héldu áfram og gerðu vel. Mér fannst ég þurfa að gera breytingar á liðinu eftir þrjá sigurleiki og þeir leikmenn sem komu inn í liðið stóðu sig virkilega vel,“ sagði Löw.