Það er ekki ólíklegt að stórleikur Spánar og Frakklands í 8-liða úrslitum EM í kvöld fari í sögubækurnar. Það er nefnilega svo að Spánverjar hafa aldrei unnið Frakka á stórmóti. Í þau fjögur skipti sem þjóðirnar hafa mæst hafa Frakkar þrisvar unnið og einu sinni varð jafntefli.
Á hinn bóginn hafa Spánverjar ekki verið slegnir út á stórmóti síðan árið 2006, og raunar aðeins tapað fyrir Sviss á stórmóti síðan þá. Eitthvað verður undan að láta í kvöld.
Það var reyndar einmitt Frakkland sem sló Spán síðast út á stórmóti. Þá skoruðu Franck Ribery, Patrick Vieira og Zinedine nokkur Zidane mörkin fyrir Frakka eftir að David Villa kom Spáni yfir. Þá ríkti eining í franska liðinu og ekki skorti leiðtogana, en sú staða er ekki uppi núna. Fjöldi hæfileikaríkra leikmanna er í hópnum en það vantar fyrirliðatýpuna sem allir líta upp til. Kannski þess vegna berast fréttir af mikilli sundrung í franska hópnum eftir tapið gegn Svíum á þriðjudag.
Fótboltafíklar fá nóg fyrir sinn snúð um helgina því á sunnudagskvöld kl. 18:45 mætast England og Ítalía. England hefur enn ekki tapað í fimm leikjum undir stjórn Roys Hodgsons sem hefur skapað góða stemningu í enska hópnum, skipað sínum mönnum að syngja þjóðsönginn fyrir leiki og blásið þeim baráttuanda í brjóst. Englendingar hafa æft vítin vel í aðdraganda leiksins enda ekki ólíklegt að úrslitin ráðist í vítaspyrnukeppni, en slíkt hefur ekki hentað enskum í gegnum tíðina.
Sagan er hliðholl Ítölum sem hafa aðeins tapað einu sinni fyrir Englandi síðustu 30 ár, í níu leikjum alls. sindris@mbl.is