Mario Balotelli skoraði bæði mörk Ítalíu þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló Þýskaland út í undanúrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Balotelli skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik í 2:1 sigri en Mesut Özil minnkað muninn úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Ítalía mætir Spáni í úrslitaleik á sunnudagskvöld.
Balotelli skoraði fyrra mark sitt með glæsilegum skalla á 20. mínútu eftir undirbúning Antonio Cassano, og þessi skrautlegi framherji Manchester City bætti svo við öðru marki með þrumuskoti eftir stungusendingu frá Riccardo Montolivo.
Þjóðverjum tókst að minnka muninn úr vítaspyrnu í uppbótartíma og þeir reyndu allt hvað þeir gátu að jafna metin en án árangurs.
Þýskaland - Ítalía, 1:2
(Mestu Özil 90. - Mario Balotelli 20., 36.)
90.+4 Leik lokið.
90.+1 Boltinn fór í hönd Balzaretti innan teigs og Þýskaland fékk því vítaspyrnu. Mesut Özil skoraði úr vítinu. Enn eru tvær mínútur eftir af uppbótartíma.
90. Manuel Neuer markvörður Þjóðverja kom fram í hornspyrnu en þeim virðist fyrirmunað að skora í þessum leik.
83. Þjóðverjar reyna hvað þeir geta að skora og skilja vörnina sína eftir galopna á meðan. Ítalir voru að skora mark en það var dæmt af vegna rangstöðu.
82. Diamanti stakk boltanum inn á Di Natale sem var sloppinn aleinn í gegnum vörn Þýskalands en hann skaut í hliðarnetið. Þvílíkt dauðafæri.
75. Marchisio var að klúðra algjöru dauðafæri. Hann hafði Di Natale sér til aðstoðar, tveir gegn varnarmanni í teignum, en ákvað að taka skotið sjálfur og hitti ekki markið. Það er jafngott að staðan er 2:0.
71. Thomas Müller var að koma inná fyrir Jerome Boateng. Kantmaður fyrir varnarmann.
70. Mario Balotelli varð að haltra meiddur af velli og Antonio Di Natale kom inná í hans stað. Gott dagsverk hjá Balotelli en meiðslin virtust ekki mjög alvarleg.
65. Hætta á ferð. Marchisio fékk sendingu frá Diamanti og var í skotfæri við vítateigslínuna en þrumaði rétt framhjá.
64. Thiago Motta var að koma inná í stað Riccardo Montolivo sem lagði upp annað mark Ítala með langri stungusendingu.
62. Þjóðverjar fengu aukaspyrnu á stórhættulegum stað rétt utan vítateigs. Marco Reus tók spyrnuna sem var mjög góð en Buffon rétt náði að verja í þverslána og yfir.
60. Mario Balotelli var ekki fjarri því að fullkomna þrennuna þegar hann lék til hliðar við varnarmann hægra megin í teignum og lét vaða en skotið fór framhjá markinu vinstra megin.
57. Antonio Cassano, sem lagði upp fyrsta mark leiksins með glæsilegum hætti, var að fara af velli og Alessandro Diamanti leysir hann af hólmi.
49. Reus hefur lífgað vel upp á sóknarleik Þjóðverja. Hann tók þríhyrningsspil með Philipp Lahm sem komst í gott skotfæri í teignum en skaut yfir markið.
46. Seinni hálfleikur er hafinn og Þjóðverjar hafa gert tvær breytingar. Mario Gómez og Lukas Podolski eru farnir af velli en Miroslav Klose og Marco Reus eru komnir inná. Joachim Löw þjálfari óhræddur við að gera breytingar sem fyrr.
45. Hálfleikur. Ítalía er með 2:0 forystu í hálfleik þökk sé Mario Balotelli sem skoraði bæði mörkin. Hann er nú orðinn einn af markahæstu mönnum mótsins með 3 mörk.
37. Balotelli missti sig í gleðinni eftir annað markið og reif sig úr treyjunni í fagnaðarlátunum svo hann er kominn með gult spjald.
36. MARK! Ítalir eru komnir í 2:0 með öðru marki frá Mario Balotelli! Hann fékk stungusendingu frá Montolivo langt fram völlinn yfir sofandi vörn Þjóðverja, kom sér að vítateigslínunni og þrumaði boltanum í hægra markhornið.
34. Cassano átti stórhættulega stungusendingu inn í vítateig á Montolivo en hann var allt of lengi að athafna sig og missti boltann til Þjóðverja.
30. Þjóðverjum gengur illa að skapa sér almennileg færi til að jafna metin en eru sífellt hættulegir með sína frábæru spyrnumenn.
20. MARK! Cassano fór laglega með boltann á vinstri kantinum og sendi fullkomna fyrirgjöf á Mario Balotelli sem skallaði boltann í netið. Glæsilegt mark!
17. Montolivo með fyrstu marktilraun Ítala. Hann reyndi skot frá vítateigsboganum neðst í vinstra markhornið en Neuer varði af miklu öryggi.
13. Buffon lenti í vandræðum með fyrirgjöf frá Boateng en varði boltann í varnarmann og þaðan fór hann rétt framhjá. Þjóðverjar eru komnir með tök á leiknum.
5. Stórhætta við mark Ítalíu! Toni Kroos tók hornspyrnu frá vinstri og sendi á Mats Hummels sem náði skoti framhjá Buffon en Andrea Pirlo bjargaði með naumindum á marklínu!
1. Leikurinn er hafinn!
0. Þjóðverjar hafa fengið tveimur dögum lengra frí en Ítalir og spurning hvort það hefur áhrif. Þar að auki fengu menn á borð við Mario Gómez og Lukas Podolski fengu góða hvíld í 8-liða úrslitunum gegn Grikkjum, þó Gómez hafi þar komið inná á 80. mínútu.
0. Verið er að leika þjóðsöngvana. Fimm mínútur í leik!
0. Giorgio Chiellini hefur náð ótrúlegum bata eftir að hafa tognað í læri gegn Írum í riðlakeppninni, og er í vinstri bakverði. Ignazio Abate er hins vegar meiddur og því fer Federico Balzaretti yfir í stöðu hægri bakvarðar.
0. Byrjunarliðin eru klár. Mario Gómez og Lukas Podolski koma inn í þýska liðið að nýju. Toni Kroos er á hægri kanti en Thomas Müller og Marco Reus eru á bekknum.
Þýskaland: (4-3-3) Neuer - Boateng, Hummels, Badstuber, Lahm - Khedira, Özil, Schweinsteiger - Kroos, Gómez, Podolski.
Varamenn: Wiese, Zieler, Schmelzer, Höwedes, Mertesacker, Gündogan, Schürrle, T. Müller.
Ítalía: (4-4-2) Buffon - Balzaretti, Barzagli, Bonucci, Chiellini - Marchisio, Pirlo, Montolivo, De Rossi - Balotelli, Cassano.
Varamenn: Sirigu, De Sanctis, Ogbonna, Abate, Thiago Motta, Giaccherini, Diamanti, Nocerino.