Sara: Þetta var klárlega víti

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn

Sara Björk Gunnarsdóttir var besti leikmaður Íslands í kvöld þegar liðið náði jafntefli gegn Noregi, 1:1, í fyrsta leiknum í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í Kalmar í kvöld.

Sara, sem krækti í vítaspyrnu rétt fyrir leikslok, tók ekki alveg undir það að fyrri hálfleikurinn hefði verið slakur hjá íslenska liðinu. Hún taldi hinsvegar að liðið hefði  getað gert betur þegar það fékk boltann.

„Mér fannst við ekki vera í brjálæðislegu basli í fyrri hálfleik en við náðum ekki að spila nógu vel, vorum ekki eins þéttar og við vildum vera, en við töluðum um það í hálfleik og náðum að laga það.“

Var leikurinn svipaður og þú bjóst við?

Já, við vissum að þær myndu ekki reyna að spila sig rosalega mikið í gegnum okkur. Þær notuðu háu sendingarnar, þær eru sterkar í loftinu og grimmar eins og við, þannig að við vissum að þetta yrði svona hörkuleikur, og við vorum vel undirbúnar fyrir það."

Sara krækti í vítaspyrnuna dýrmætu undir lok leiksins en áður hafði hún komist í tvö góð færi í norska vítateignum.

„Þegar tækifærin gefast reyni ég að komast inní vítateiginn og fá boltann þar og skapa eitthvað fyrir liðið. Ég náði að gera það og fá þetta víti, og svo hefðum við getað skorað fleiri mörk.

Auðvitað er ég ánægð með að hafa fengið eitt stig útúr þessum leik eins og hann þróaðist en ég held að það hefði ekki verið ósanngjarnt að við fengjum þrjú stig. Mér fannst það liggja í loftinu undir lokin. Þetta segir kannski eitthvað um formið á norska liðinu, þær voru mjög þreyttar í seinni hálfleik á meðan við gáfum í."

Hvað þýða þessi úrslit fyrir framhaldið?

"Þetta þýðir auðvitað rosalega mikið fyrir okkur að hafa fengið þetta stig og nú förum við fullar sjálfstrausts í næsta leik. Við yrðum mjög glaðar að ná í eitt eða þrjú stig úr honum og komast með því í mjög góða stöðu."

Aftur að vítaspyrnunni - var þetta réttur dómur?

"Já, þetta var klárlega vítaspyrna. Ég sá tvo varnarmenn fyrir framan mig og ætlaði að reyna að komast í gegnum þá. Það var erfitt fyrir þá að verjast í þessari stöðu, þetta var víti - og  við skoruðum úr því," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir.

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin