Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, sagði við mbl.is eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum í Växjö í kvöld, 3:0, að hann væri vonsvikinn yfir því að liðið skyldi ekki standa sig betur gegn Evrópumeisturunum.
„Nei, þetta var fullstórt en sanngjarnt miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Þær voru mun betri aðilinn í dag,“ sagði Sigurður.
Hann sagði að ekki hefði bætt úr skák að missa þrjá leikmenn af velli vegna meiðsla eða veikinda sem væri slæmt fyrir leikinn gegn Hollendingum á miðvikudag.
„Við gátum ekki sett inná varamenn til að breyta taktík eða hvíla einhverja fyrir leikinn gegn Hollendingum,“ sagði Sigurður sem hrósaði Guðbjörgu markverði sérstaklega, en einnig Glódísi Perlu Viggósdóttur og Dóru Maríu Lárusdóttur fyrir frammistöðu sína.
Sjá nánar viðtalið við Sigurð í heild í myndskeiðinu hér fyrir ofan.