Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, átti enn mjög góðan leik í kvöld þegar Ísland vann Holland, 1:0, í úrslitaleiknum um sæti í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í Svíþjóð.
„Þetta er bara ólýsanlegt, ég er svo ótrúlega stolt af liðinu og varnarleik þess. Taktíkin tókst fullkomlega, þær nýttu sér aldrei þessa fljótu sentera,“ sagði Guðbjörg við mbl.is eftir leikinn.
Hún sagði að það væri létt fyrir sig sem markvörð að lesa leikinn og sendingarnar sem kæmu innf yrir vörnina þegar pressan hjá liðinu væri eins góð og í leiknum í kvöld.
„Varnarleikur liðsins var stórkostlegur. Þetta var bara eins og í handboltanum - þegar vörnin er góð er markvarslan góð,“ sagði Guðbjörg hæstánægð.
Hún kvaðst hafa beðið þolinmóð eftir sínu tækifæri með landsliðinu. Ísland ætti frábæra markverði, hún hefði verið tilbúin í mörg ár og það væri afar ánægjulegt að hafa fengið að spila meira en einn leik þegar til kom.
Guðbjörg sagði að það yrði gaman að mæta Svíum í átta liða úrslitum. Þar yrði uppselt, gífurleg stemning og gaman. Frakkarnir væru líka góðir, þetta væru tvö frábær knattspyrnulið sem Ísland gæti mætt. En í fótbolta væri allt hægt, þar væri möguleiki að sigra alla. Nú ætlaði hún hinsvegar að njóta sigurins í kvöld og byrja að undirbúa sig fyrir framhaldið í fyrramálið.
Viðtalið við Guðbjörgu í heild er í myndskeiðinu hér að ofan.