Hvað gerist ef Ísland kemst áfram?

Dóra María Lárusdóttir í baráttu gegn Þjóðverjum á EM.
Dóra María Lárusdóttir í baráttu gegn Þjóðverjum á EM. AFP

Það ræðst síðdegis í dag hvort íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu tekst að ná því markmiði sínu að komast í átta liða úrslit Evrópukeppninnar sem nú stendur yfir en lokaleikur B-riðilsins, gegn Hollendingum, hefst á Växjö Arena klukkan 16.00.

Verkefnið er einfalt í sjálfu sér. Sigur þýðir að Ísland er komið áfram, jafntefli eða tap þýðir að liðið verður neðst í riðlinum og hefur lokið keppni.

En hvað tekur við - hvað gerist í framhaldinu ef Ísland vinnur Holland og tryggir sér réttinn til að leika í átta liða úrslitunum?

Þau eru leikin á sunnudag og mánudag, tveir leikir hvorn dag. Mótherjar Íslands ráðast af úrslitum annarra leikja, bæði leik Þýskalands og Noregs, sem fer fram í Kalmar á sama tíma, og af því hvernig lokaleikir C-riðilsins enda á morgun þegar Frakkland mætir Englandi og Spánn mætir Rússlandi.

Ef íslenska liðið fer áfram þarf það líklega að bíða í sólarhring eftir því að komast að því hverjir mótherjarnir í 8-liða úrslitunum verða, hvar verður spilað og hvort það verður á sunnudegi eða mánudegi.

Möguleikarnir eru í raun þrír og eru eftirtaldir:

1) Ísland vinnur Holland og úrslitin í leik Þýskalands og Noregs verða á þann veg að þau verða í fyrsta og öðru sæti en Ísland í 3. sæti. Þá er tvennt í stöðunni - annar möguleikinn er sá að Ísland fari til Halmstad og leiki þar við gestgjafana, Svía, á sunnudaginn klukkan 13.00 að íslenskum tíma. Það verður niðurstaðan ef liðið í 3. sæti A-riðils (Danmörk) kemst áfram. Niðurstaða: Svíþjóð - Ísland.

2) Hinn möguleikinn, ef Ísland endar í 3. sæti riðilsins, er að liðið fari til Linköping og spili þar við Frakkland á mánudagskvöldið kl. 18.45 að íslenskum tíma. Það verður niðurstaðan ef liðið í 3. sæti C-riðils (Spánn, England eða Rússland) kemst áfram. Niðurstaðan: Frakkland - Ísland.

3) Síðan er þriðji möguleikinn sá að Ísland hreppi 2. sætið í B-riðli. Það myndi gerast með því að vinna Holland, og Noregur tapi á meðan fyrir Þýskalandi og markamunurinn snúist Íslandi í hag. Fyrir leikina er markatala Noregs 2:1 og Ísland 1:4. Ef Ísland vinnur 1:0 þarf Noregur að tapa 0:4 en ef Ísland vinnur 2:1 þarf Noregur að tapa 0:3.

Sú staða getur komið upp að Noregur og Ísland verði hnífjöfn, t.d. bæði með markatöluna 2:4, ef Ísland vinnur 1:0 og Noregur tapar 0:3. (Eða 2:1 og 1:4, o.s.frv.) Ef það gerist, fær Noregur 2. sætið vegna hærri stöðu á styrkleikalista UEFA. Þar er Noregur í fimmta sæti í Evrópu en Ísland í áttunda sæti.

Ef þetta verður niðurstaðan - Ísland skákar Noregi á markatölu og nær 2. sætinu - er ljóst að möguleikarnir í framhaldinu verða mestir. Þá myndu Ísland og Ítalía mætast í átta liða úrslitunum á sunnudaginn klukkan 16.00 að íslenskum tíma. Sá leikur færi þá fram í Växjö, sem er orðinn nokkurs konar heimavöllur Íslands, og ekki þarf að fjölyrða um að Ísland ætti miklu meiri möguleika gegn Ítalíu en gegn Svíþjóð eða Frakklandi. Verði þetta útkoman, liggur hún fyrir strax að loknum leikjunum í dag.
Niðurstaðan: Ítalía - Ísland.

En allt eru þetta vangaveltur enn sem komið er og snúast um þetta stóra „ef“. Bara ef Ísland sigrar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin