Ísland er komið í átta liða úrslitin í Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu eftir frækinn sigur á Hollendingum, 1:0, í lokaumferð B-riðilsins í Växjö í dag.
Noregur sigraði Þýskaland 1:0 og vann riðilinn með 7 stig. Þýskaland fékk 4 stig, Ísland 4 stig, en Holland, sem komst í undanúrslit í síðustu keppni, fékk 1 stig og heldur heimleiðis. Þýskaland mætir Ítalíu í átta liða úrslitunum.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmarkið með skalla á 29. mínútu og nú þarf íslenska liðið að bíða þar til annað kvöld til að vita hvort það mætir Svíþjóð eða Frakklandi í átta liða úrslitunum.
Ísland var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og Hólmfríður Magnúsdóttir var nærri því að skora snemma leiks þegar hún skaut í innanverða stöngina, boltinn rúllaði rétt fyrir utan marklínuna og fram hjá hinum megin. Danielle van de Donk var nærri því að skora fyrir Holland þegar hún átti gott langskot en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði vel, sló boltann í þverslá og út.
Hollenska liðið sótti linnulítið í seinni hálfleik en skapaði sér samt engin dauðafæri. Nokkur hættuleg skot sem Guðbjörg Gunnarsdóttir varði en hún steig ekki feilspor í markinu í dag, frekar en í fyrri leikjum Íslands í keppninni.
Lið Íslands varðist vel og skipulega allan seinni hálfleikinn, dró kraftinn úr hættulegustu vopnum hollenska liðsins og Sif Atladóttir hélt Manon Melis niðri allan tímann, með góðri aðstoð samherja sinna í vörninni.
Glæsileg frammistaða og nú er spurning hvort það verða Svíar í Halmstad á sunnudaginn eða Frakkar í Linköping á mánudagskvöldið. Það skýrist ekki fyrr en annað kvöld þegar í ljós kemur hvort það verður lið úr A- eða C-riðli sem kemst áfram í 3. sæti.
Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Guðbjörg Gunnarsdóttir. Vörn: Dóra María Lárusdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja: Fanndís Friðriksdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir. Sókn: Rakel Hönnudóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir.
Varamenn: Þóra B. Helgadóttir (m), Sandra Sigurðardóttir (m), Ólína G. Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir, Soffía A. Gunnarsdóttir Elín Metta Jensen.
Lið Hollands: (4-3-3). Mark: Loes Geurts. Vörn: Dyanne Bito, Daphne Koster, Anouk Hoogendijk, Claudia van den Heiligenberg. Miðja: Sherida Spitse, Danielle van de Donk, Renée Slegers. Sókn: Kirsten van de Ven, Manon Melis, Lieke Martens.
Varamenn: Sari van Veenendaal (m), Angela Christ (m), Leonne Stentler, Mirte Roelvink, Maayke Heuver, Desiree van Lunteren, Merel van Dongen, Sylvia Smit, Siri Worm, Anouk Dekker, Mandy Versteegt, Chantal de Ridder.