Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur heldur betur slegið í gegn í marki íslenska landsliðsins í Evrópukeppninni í Svíþjóð. Segja má að hún hafi vart stigið feilspor í leikjunum þremur í riðlakeppninni, fékk sérstaklega mikið hrós fyrir frammistöðuna gegn Þýskalandi og var ákaflega örugg í hinum tveimur leikjunum.
Þegar hafa komið upp raddir um að frammistaða Guðbjargar gæti fleytt henni enn lengra á sínum ferli en fram hefur komið að þýsk lið séu mögulega farin að fylgjast með henni.
Guðbjörg hefur staðið í skugga Þóru B. Helgadóttur en nýtti tækifærið vel hérna í Svíþjóð. Hún hefur leikið sem atvinnumaður í hálft fimmta ár, varði mark Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í fjögur ár og gekk svo til liðs við Avaldsnes, nýliða í norsku úrvalsdeildinni, í vetur. Þar eru samherjar hennar m.a. Hólmfríður Magnúsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og Mist Edvaldsdóttir.
Guðbjörg sagði við Morgunblaðið að það væri mikill munur á fótboltanum sem væri spilaður í Svíþjóð og Noregi.
„Já, þetta er allt annar kúltúr. Svíar eru meiri svona „possession“ þjóð, þeir vilja spila stutt og halda boltanum, ólíkir okkur Íslendingum. En Norðmennirnir eru miklu líkari okkur, þeir eru með meira af löngum sendingum, eru góðir í föstum leikatriðum, þannig að ef eitthvað er sem ég hef bætt mig með í Noregi þá eru það fyrirgjafir og að verjast föstum leikatriðum. Mér fannst ég hins vegar í Svíþjóð bæta mig mikið í fótunum og að verða betri spilari. Þetta er allt öðruvísi upplegg og gott að vera búin að kynnast báðum.“
Sjá nánar ítarlegt viðtal við Guðbjörgu og umfjöllun um EM kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.