Noregur tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í knattspyrnu með öruggum 3:1-sigri á Spáni í Kalmar. Í undanúrslitunum mætir liðið sigurvegaranum úr leik Frakklands og Danmerkur sem fram fer í kvöld.
Noregur komst yfir á 24. mínútu með marki reynsluboltans Solveigar Gulbrandsen en hún átti fyrirgjöf frá hægri sem endaði í markinu. Irene Paredes skoraði svo afskaplega slysalegt sjálfsmark rétt fyrir hálfleik þegar henni mistókst að hreinsa frá og lyfti boltanum yfir Ainhoa Tirapu í markinu.
Ada Hegerberg kom Noregi í 3:0 eftir klukkutíma leik með glæsilegu skoti úr vítateigsboganum en Jennifer Hermoso náði að minnka muninn í uppbótartíma. Það var aðeins annað markið sem Norðmenn fá á sig í mótinu en það fyrra gerði Margrét Lára Viðarsdóttir úr vítaspyrnu.