Annar landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, Lars Lagerbäck, varð fyrir vonbrigðum með leik Íslands gegn Noregi í vináttulandsleik í kvöld. Noregur vann, 3:2, en sigur þeirra norsku var sanngjarn.
„Þetta var ekki besta frammistaða okkar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við lékum ekki sem lið og gerðum nokkur heimskuleg mistök. Eins fannst mér baráttan ekki vera til staðar. Við töpuðum mörgum 50/50 návígum. Þetta var ekki það Ísland sem við erum vanir að sjá,“ sagði Lagerbäck í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.
Svíinn kveðst þó ekki hafa áhyggjur en Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu 14. júní. „Ég hef ekki áhyggjur. Það er alltaf hægt að segja eitthvað jákvætt en á ákveðinn hátt er þetta jákvætt. Þetta var ágætisviðvörun fyrir strákana. Við erum að undirbúa okkur og leikurinn var öðruvísi en aðrir vináttuleikir vegna þess að við æfðum af fullum krafti í gær. Auk þess reyndum við að láta leikmenn sem hafa lítið spilað upp á síðkastið leika í kvöld. Það afsakar samt ekki neitt, við vorum ekki góðir í kvöld. En ég hef ekki áhyggjur. Ég held að við munum sjá hið rétta íslenska lið 14. júní.“
Þrátt fyrir fremur dapran leik var Lagerbäck ánægður með eitt og annað. „Það jákvæðasta var að Aron er alveg klár í slaginn. Hann og Kolbeinn hafa æft á fullu síðustu daga. Við vildum ekki láta Kolbein spila meira en í hálftíma en þeir eru báðir klárir í slaginn. Þegar við komum aftur til Reykjavíkur býst ég við því að allir verði 100% klárir á æfingum og það er eflaust það jákvæðasta við kvöldið.“