Stuðningsmaður enska landsliðsins í knattspyrnu er í lífshættu eftir átök stuðningsmanna landsliða Englands og Rússlands við lögreglu í Marseille í Frakklandi. AFP-fréttastofan greinir frá þessu, en lögreglumenn hafa þurft að beita kylfum og táragasi á stuðningsmennina í dag. Alls hafa átökin staðið yfir í þrjá daga.
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, fordæmdi átökin í dag. „UEFA fordæmir þau atvik sem hafa átt sér stað í Marseille,“ sagði talsmaður sambandsins. „Fólk sem grípur til slíkrar ofbeldisfullrar hegðunar á ekki heima í fótbolta.“
Um þrjúleytið í dag brutust út óeirðir, en þá söfnuðust stuðningsmennirnir saman fyrir utan ölstofur og hótel við höfnina í borginni. Einn maður missti meðvitund í átökunum við lögreglu og níu voru handteknir.
Í gærkvöldi, áður en leikur Englands og Rússlands hófst, söfnuðust 250 stuðningsmenn enska landsliðsins saman við höfnina í Marseille þar sem þeir sungu og klifruðu á skiltum.
Frétt mbl.is: Enn læti í enskum stuðningsmönnum
Frétt mbl.is: Enskar bullur kveiktu í veitingastað