Það er hægt að líta svo á að Íslendingar séu heppnir að mæta ekki Cristiano Ronaldo og félögum í Portúgal í Parísarborg heldur í Saint-Étienne á þriðjudag. Ástæðan er sú að Portúgalar eru gríðarlega fjölmennir þar í borg og einn stuðningsmaður sem var mættur á opna æfingu liðsins segir í raun að París sé þeirra önnur höfuðborg á eftir Lissabon.
„Höfuðborgin er Lissabon, svo París. Það eru kannski 11 milljónir íbúa í Portúgal en úti um allt og í Frakklandi sérstaklega eru miklu, miklu fleiri,” sagði Gabriel dos Santos, franskur stuðningsmaður Portúgals af portúgölskum uppruna.
Frakkland er sá staður þar sem flestir Portúgalar utan föðurlandsins búa. Yfir milljón manns af portúgölskum uppruna býr í Frakklandi og stærstur hluti þeirra býr í París. Það er því ljóst að þegar Portúgal mætir Austurríki á Parc des Princes í París hinn 18. júní verður andrúmsloftið rafmagnað.
Þrír leikmenn Portúgala eru fæddir í Frakklandi, þeir Raphaël Guerreiro, Anthony Lopes og Adrien Silva. Lopes vonast sjálfur til þess að „útlagarnir“ muni tryggja það að liðið verði það best studda í Frakklandi á eftir heimamönnum.
„Ég fæddist í Frakkland er foreldrar mínir eru portúgalskir. Ég er með tvö hjörtu,“ sagði Dos Santos.
„Ég man eftir leik Portúgals gegn Frakklandi á Stade de France árið 2014 og svo virtist sem Portúgalar væru fleiri á vellinum en Frakkar,“ sagði Dos Santos.
Margir stuðningsmanna Portúgala hrópa þó ekki „áfram Portúgal“ á portúgölsku heldur „allez Portugal“ á frönsku.