„Þetta voru frábær úrslit og við tökum þessum úrslitum með glöðu geði,“ sagði Jón Daði Böðvarsson við mbl.is eftir frábær úrslit íslenska landsliðsins í knattspyrnu á EM í kvöld en 1:1 urðu úrslitin gegn Portúgölum í Saint-Étienne í kvöld.
Selfyssingurinn skilaði að vanda frábærri vinnu og var sívinnandi úti um allan völl og hann átti sinn þátt í marki íslenska liðsins þegar hann vann boltann og kom honum út á Jóhann Berg Guðmundsson áður en Birkir Bjarnason skilaði boltanum í netið.
„,Við ræddum um það í hálfleik að vera agaðri og hleypa þeim ekki í skyndisóknir og þetta gekk betur hjá okkur í seinni hálfleik. Þeir eru stórhættulegir í þessum skyndisóknum. Portúgalarnir eru með virkilega gott lið en mér fannst við ná að halda þeim vel í skefjum.
Ég er algjörlega búinn á því,“ sagði Jón Daði sem skilaði virkilega góðum leik eins og flestir allir íslensku leikmennirnir. „Maður varð að hlaupa mikið. Vörnin hefst á mér og Kolbeini og við gáfum allt í þennan leik,“ sagði Jón Daði. Miklar vangaveltur voru fyrir leikinn hvort hann eða Alfreð myndi byrja inni á og það fór svo að Jón byrjaði eins og hann gerði í flestum leikjunum í undankeppninni.
„Jú auðvitað var ég ánægður þegar ég vissi að ég átti að byrja enda er maður í þessu til að spila sem mest. Mér fannst bara eðlilegast í heimi að glíma við þessa karla Pepe og Carvalho. Þessi úrslit gefa okkur mikið upp á framhaldið og eykur sjálfstraustið í liðinu.“