„Klefinn var vitaskuld dapur eins og hjá öllum sem fá á sig mark undir lokin,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar af þjálfurum íslenska landsliðsins í knattspyrnu, eftir 1:1 jafntefli gegn Íslendingum á EM í Marseille í kvöld.
„Ungverjarnir eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína en kannski vorum við of þreyttir undir lokin. Ég sá það alla vega eftir leikinn að þeir hlupu meira en við á lokakaflanum. Við náðum ekki að halda boltanum nægilega vel innan liðsins,“ sagði Heimir á blaðamannafundi eftir leikinn.
Spurður út í sjálfsmarkið sem Birkir Sævarsson skoraði sagði Heimir; „Það var lítið annað sem Birkir gat gert. Það var maður að koma á fleygiferð og hann hefði skorað ef Birkir hefði ekki rekið fótinn í boltann. Það er ekkert hægt að sakast við hann en hins vegar áttum við að geta komið í veg fyrir fyrirgjöfina,“ sagði Heimir.
Um vítaspyrnuna sem Íslendingar fengu og Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr sagði Heimir;
„Ég sá stutta endursýningu á því að þar sá ég snertingu á Aron en kannski var vítaspyrnudómurinn strangur.“
„Ég var ánægður með baráttuna í liðinu en við hefðum getað verið klókari og við hefðum geta tekið okkur lengri tíma í hlutina undri lokin. En við verðum að vera jákvæðir. Við höfum ekki tapað leik á mótinu og erum enn inni i keppninni sem er mjög jákvætt. Það munaði samt ansi litlu að við tryggðum okkur sæti í 16-liða úrslitunum í kvöld.
Á morgun verðum við kannski ánægðir með þetta stig. Við erum heppnir að vera í lokariðlinum og þá vitum við stöðuna þegar við spiluðum við Austurríki í lokaumferðinni. Það er að vissu leyti gott. Eitt stig gæti dugað til að komast áfram en ég það þó ósennilegt.“