Ísland er með tvö stig eftir fyrstu tvo leikina í riðlakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu í Frakklandi eftr jafntefli, 1:1, við Ungverja í Marseille. Ungverjar jöfnuðu metin með sjálfsmarki á 88. mínútu.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Íslands úr vítaspyrnu á 39. mínútu og staðan var 1:0 fram á 88. mínútu leiksins. Grátleg niðurstaða eftir að Ísland hafði varist þungri sókn Ungverja allan seinni hálfleikinn án þess að fá á sig opin færi.
Ungverjaland er þá með 4 stig og Ísland 2 eftir tvær umferðir. Portúgal er með 1 stig og Austurríki ekkert en liðin mætast á eftir.
Ungverjar voru betri aðilinn fyrst hálftímann en sköpuðu sér engin umtalsverð færi. Jón Daði Böðvarsson átti hinsvegar hættulegan skalla yfir mark Ungverja á 10. mínútu.
Á 31. mínútu komst Jóhann Berg Guðmundsson í dauðafæri, einn gegn Gábor Király, sem náði að verja skot hans með hægri fæti.
Á 38. mínútu komst Kolbeinn Sigþórsson í gott færi í vítateig Ungverja en skaut í varnarmann og í horn. Uppúr hornspyrnunni sem Jóhann tók frá hægri var brotið á Aroni Einari Gunnarssyni og dæmd var vítaspyrna.
Gylfi Þór Sigurðsson fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi, sendi boltann í vinstra hornið en Király fór til hægri. Ísland var komið með forystu, 1:0.
Ungverska liðið var með boltann 67 prósent af fyrri hálfleiknum en Ísland fékk hinsvegar þau marktækifæri sem gáfust.
Ungverjar hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti, pressuðu stíft, en gekk illa að skapa sér færi gegn þéttum varnarleik Íslands. Oft munaði þó mjóu að þeir kæmust í góð færi í kringum vítateiginn en vörnin hélt og Hannes varði af öryggi það sem kom á markið.
En á 88. mínútu gerist það. Íslenska vörnin opnaðist, Nemanja Nikolic komst að endamörkum og sendin boltann inní markteiginn þar sem hann fór af Birki Má Sævarssyni og í netið, 1:1.
Dramatíkin var ekki á enda Í lok uppbótartíma fékk Ísland aukaspyrnu á vítateigslínu Ungverja. Upplagt færi til að tryggja þrjú stig. Gylfi Þór Sigurðsson skaut í vegginn, Eiður Smári Guðjohnsen fékk boltann en skaut í varnarmann og horn. Flautað af í sömu andrá!
Ísland | 1:1 | Ungverjaland | Opna lýsingu Loka | |
---|---|---|---|---|
90. mín. Ádám Nagy (Ungverjaland) fær gult spjald fyrir brot | ||||
Augnablik — sæki gögn... |