Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að þótt landsliðsmennirnir séu meðvitaðir um hina ýmsu möguleika sem eru í stöðu liðsins um að komast í 16-liða úrslitin á EM séu þeir ekki að hugsa of mikið um slíkt.
„Auðvitað fylgjumst við með öllu sem gerist, skoðum möguleikana og vitum hvað við þurfum að gera til að komast áfram. En við einbeitum okkur að því að vinna leikinn gegn Austurríki, það er langbesti hugsunarhátturinn, og vera ekki að velta hinu fyrir sér. Við höfum sýnt hvað við getum með okkar baráttuhug og vilja, og þá er allt mögulegt. Og með alla þessa Íslendinga sem styðja svona frábærlega á leikjunum hérna í Frakklandi er ekki erfitt að mótivera sig fyrir leikina,“ sagði Ari á fréttamannafundi landsliðsins í Annecy fyrir stundu.
„Okkar markmið fyrir keppnina var alltaf að komast áfram úr riðlinum og það hefur ekkert breyst. Við ætlum að sýna hvað við getum og vitum líka hversu mikilvægt það er fyrir alla stuðningsmennina okkar hérna í Frakklandi,“ sagði Ari en íslenska liðið fer á morgun til Parísar og mætir Austurríki í lokaleik riðlakeppni EM á Stade de France í St. Denis klukkan 16 að íslenskum tíma á miðvikudaginn.
Hann sagði aðspurður að þreyta eftir leikina væri ekki vandamál. „Við erum með frábært starfslið með okkur sem meðhöndlar okkur af þvílíkum dugnaði. Ef maður er eitthvað að hangsa er strax hnippt í mann og spurt hvort maður ætli ekki að drulla sér í „trítment.“ Allir eru fljótir að hjálpa til ef eitthvað er að. Nú er annar dagur eftir leik og menn eru þá oft aðeins þyngri. Þetta sést mun betur á morgun,“ sagði Ari.
Spurður hvort liðið væri búið hrista af sér vonbrigðin eftir jöfnunarmark Ungverja í Marseille á laugardaginn svaraði Ari að bragði: „Þetta er nú eiginlega vitlaus spurning, þið þekkið okkur betur en það! Auðvitað vorum við svekktir, pirraðir og reiðir. Nú er nýr dagur og annar á morgun. Við erum góðir vinir og tölum hreint út hver við annan þegar eitthvað er að. Við verðum klárir í næsta leik, það er engin spurning.“