Ísland áfram eftir ótrúlegan leik

Ísland tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu eftir ótrúlegan sigur á Austurríki, 2:1, á Stade de France í útjaðri Parísar í dag. Ljóst var fyrir leikinn að jafntefli myndi duga Íslandi, en sigurinn tryggði liðinu annað sæti riðilsins og liðið mætir Englandi í sextán liða úrslitunum.

Leikur þjóðanna fer fram í Nice á mánudagskvöldið kemur, 27. júní, og hefst klukkan 21.00 að staðartíma en klukkan 19 að íslenskum tíma.

Íslenska liðið fagnar sigurmarki Arnórs Ingva Traustasonar.
Íslenska liðið fagnar sigurmarki Arnórs Ingva Traustasonar. AFP

Og leikurinn byrjaði heldur betur fjörlega. Strax á annarri mínútu átti Gylfi Þór fallega hælsendingu á Jóhann Berg sem lét vaða fyrir utan teig og boltinn small í samskeytunum. Heldur betur góð byrjun sem gaf góð fyrirheit.

Á 11. mínútu lék Hannes Þór sér nokkuð að eldinum í marki Íslands þegar Marko Arnautovic stal boltanum af tám hans en náði ekki að leggja hann fyrir sig. Þar skall hurð nærri hælum. En aðeins sjö mínútum síðar dró heldur betur til tíðinda.

Ísland fékk þá innkast hægra megin á vellinum. Aron Einar grýtti boltanum langt inn á teig, Kári Árnason fleytti honum áfram inn á markteig þar sem Jón Daði Böðvarsson, með menn í sér, náði að snúa og koma boltanum í netið framhjá Robert Almer í markinu. Annað landsliðsmark Jóns Daða, sem hafði ekki skorað síðan gegn Tyrkjum í fyrsta leik undankeppninnar haustið 2014. Og íslenskir áhorfendur gjörsamlega ærðust!

Íslensku strákarnir fagna markinu sem Jón Daði Böðvarsson skoraði!
Íslensku strákarnir fagna markinu sem Jón Daði Böðvarsson skoraði! AFP

Austurríkismenn pressuðu meira eftir markið án þess þó að reyna að ráði á Hannes í markinu. En á 36. mínútu var Ari Freyr Skúlason dæmdur brotlegur innan teigs þegar hann virtist toga David Alaba niður. Vítaspyrna dæmd og á punktinn steig varnarmaðurinn Aleksandar Dragovic. Skot hans fór hins vegar í stöngina og þaðan framhjá, og enn á ný ærðust íslenskir áhorfendur.

Birkir Bjarnason kom boltanum í markið skömmu síðar, en var réttilega dæmdur rangstæður þó tæpt hafi það verið. Austurríki reyndi að pressa undir lok fyrri hálfleiks en varð lítt ágengt og staðan 1:0 fyrir Íslandi í hálfleik.

Austurríki gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik pressaði stíft í upphafi síðari hálfleiks, enda allt eða ekkert fyrir þá. Kári bjargaði stórglæsilega á marklínu eftir að David Alaba lét vaða í teignum. Munaði þar heldur betur mjóu og það tók strákana nokkurn tíma að ná áttum eftir hlé, sérstaklega vegna þeirrar pressu sem mætti þeim.

Íslendingar bregðast við eftir að hafa fengið vítaspyrnu dæmda á …
Íslendingar bregðast við eftir að hafa fengið vítaspyrnu dæmda á sig. AFP

Og pressa Austurríkismanna bar ávöxt á 60. mínútu. Varamaðurinn Alessandro Schöpf fékk þá boltann utan teigs, fór einkar auðveldlega framhjá Kára og skoraði í hornið framhjá Hannesi. Staðan 1:1, en Ísland enn öruggt áfram eins og sakir stóðu.

Og Austurríkismenn héldu áfram að pressa á meðan ráðaleysi fór að gæta hjá íslenska liðinu. Aftasti varnarmaður Austurríkis var löngum stundum kominn inn á vallarhelming Íslands og leikmenn þeirra fengu að leika nokkuð lausum hala. Á 72. mínútu bjargaði Hannes Þór meistaralega í markinu þegar markaskorarinn Schöpf var kominn í dauðafæri, en Hannes var fljótur niður og komst fyrir skot hans.

Lokamínúturnar voru svo æsispennandi, en áfram voru það austurríkismenn sem réðu ferðinni. Þeir pressuðu stíft og voru því fáliðaðir til baka, sem kom Íslandi heldur betur vel. Á lokamínútu uppbótartímans vann Ísland boltann, Theódór Elmar Bjarnason geystist fram og fann Arnór Ingva Traustason á fjærstöng sem skoraði í blálokin. Lokatölur 2:1 eftir hreint ótrúlegan leik.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en áfram verður fjallað ítarlega verður fjallað um hann í kvöld sem og í Morgunblaðinu á morgun.

Ísland 2:1 Austurríki opna loka
90. mín. Nauðvörn áfram hjá Íslandi. Þvílík spenna!
mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin