„Ég sá Elmar með boltann og hann rennir honum fallega á mig. Hann fór síðan einhvern veginn inn,“ sagði Arnór Ingvi Traustason í viðtali við Guðmund Benediktsson í Sjónvarpi Símans þegar Arnór var beðinn að lýsa sigurmarkinu sem hann skoraði í 2:1-sigrinum á Austurríki á EM nú fyrir stundu.
Hann sagði tilfinninguna eftir leik ótrúlega en stuðningsmenn Íslands sungu og trölluðu lengi eftir leik. „Ég er enn þá með hroll, þetta er ótrúlegt. Horfðu á þá (stuðningsmennina) í alvöru talað, þetta er ótrúlegt. Það eru hvað 10 þúsund manns hérna.“
Arnór var ánægður með byrjunina á leiknum en fannst liðið falla fullmikið til baka í seinni hálfleik. „Við byrjuðum leikinn vel og náðum að halda boltanum. Við féllum allt of aftarlega í seinni hálfleik en vissum að við værum áfram í 1:1 en svo náðum við einni sókn þarna.“
Ísland mætir Englandi í 16-liða úrslitum og Arnór hlakkar til þess. „England er næst og við förum að undirbúa okkur undir það. Við eigum þetta allir skilið, þetta er svo frábær hópur. Við erum enn þá taplausir og höldum því vonandi áfram.“