Þjóðverjar í undanúrslit

Mesut Özil skoraði fyrir Þýskaland. Hér fagnar hann marki sínu.
Mesut Özil skoraði fyrir Þýskaland. Hér fagnar hann marki sínu. AFP

Þýskaland er komið í undanúrslit Evrópumótsins í knattspyrnu eftir að hafa lagt Ítalíu að velli eftir vítaspyrnukeppni í Bordeaux í kvöld. Vítaspyrnukeppnin fór í bráðabana þar sem Mattia Darmian reyndist skúrkurinn.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu. Bæði lið voru að finna sig á vellinum en Þjóðverjar voru líklegri. Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem liðin fóru að skapa sér eitthvað af viti.

Thomas Müller kom sér í gott færi þegar fjórar mínútur voru eftir af hálfleiknum en skot hans úr teignum var slappt og hélt Gianluigi Buffon boltanum. Stefano Sturaro átti þá hættulegt skot fyrir ítalska liðið undir lokin en honum brást bogalistin.

Síðari hálfleikur var töluvert líflegri. Müller fékk dauðafæri fyrir utan teig en Alessandro Florenzi bjargaði á ótrúlegan hátt. Stuttu síðar var Mesut Özil búinn að koma Þjóðverjum yfir eftir magnaða sókn.

Mario Gomez stakk boltanum inn fyrir vörnina á Jonas Hector sem kom knettinum fyrir á Özil, sem gat ekki annað en komið boltanum í netið. Gomez fékk svo sjálfur dauðafæri stuttu seinna en klúðraði einn á móti Buffon.

Ítalska liðið fékk vítaspyrnu á 77. mínútu en Jerome Boateng handlék þá knöttinn innan teigs eftir fyrirgjöf frá Florenzi. Leonardo Bonucci tók spyrnuna og skoraði örugglega í hægra hornið.

Ítalir fengu nokkur góð færi undir lok leiks en nýttu þó ekki. Framlengingin var ekki mikið fyrir augað. Bæði lið fengu ágætis færi en þó engin dauðafæri. Það þurfti því að fara með leikinn í vítaspyrnukeppni þar sem Þjóðverjar höfðu betur eftir bráðabana.

Mattia Darmian klúðraði sínu víti í bráðabana á meðan Jonas Hector skoraði framhjá Buffon og Þjóðverjar því í undanúrslit Evrópumótsins. Frakkland eða Ísland mæta heimsmeistaraliði Þjóðverja.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. Þýskaland er komið áfram í undanúrslit. Liðið mætir Frakklandi eða Íslandi þar.

5:6 - JONAS HECTOR SKORAR!!!!! Buffon var í þessu en það var ekki nóg. Þýskaland er komið áfram.

5:5 - MATTIA DARMIAN KLÚÐRAR!!! Neuer ver frá honum.

5:5 - JEROME BOATENG SKORAR!!! Öruggt hjá honum í vinstra hornið. Þetta er rosaleg vítakeppni, var skelfileg áðan. Viðurkenni það.

5:4 - MATTIA DE SCIGLIO SKORAR!!! VÁ!!! Hann þrumaði boltanum í slá og inn. Þvílík veisla.

4:4 - JOSHUA KIMMICH SKORAR!!! Öruggt í hornið. Þetta klárast aldrei.

4:3 - MARCO PAROLO SKORAR!! Öruggt á mitt markið.

3:3 - MATS HUMMELS SKORAR!! Buffon var í boltanum. Tæpur þarna. Fyrsta umferð í bráðabana búin.

3:2 - EMANUELE GIACCHERINI SKORAR!!! Gott víti vinstra megin.

2:2 - BASTIAN SCHWEINSTEIGER KLÚÐRAR!! Hann skýtur boltanum vel yfir markið. Þetta er hræðilegasta vítakeppni sem ég hef séð.

2:2 - LEONARDO BONUCCI KLÚÐRAR!! Manuel Neuer ver frá honum vinstra megin.

2:2 - JULIAN DRAXLER SKORAR!!! Öruggt í hægra hornið.

2:1 - GRAZIANO PELLE KLÚÐRAR!!! Hvað er að gerast??? Hann setur boltann vel framhjá.

2:1 - MESUT ÖZIL Í STÖNG!!! Özil setti boltann í hægri stöngina. Hvað er að gerast hérna?

2:1 - ANDREA BARZAGLI SKORAR!! Beint á markið. Sendi Neuer í hornið.

1:1 - THOMAS MÜLLER KLÚÐRAR!!! Hræðilegt víti á Buffon.

1:1 - SIMONE ZAZA KLÚÐRAR!! Hann þrumaði boltanum yfir eftir hræðileg upphlaup að honum.

1:1 - TONI KROOS SKORAR!! Öruggt. Buffon fór í rétt horn en ekki nóg.

1:0 - LORENZO INSIGNE SKORAR!!! Sendi Neuer í vitlaust horn. Ítalía komið yfir.

Vítaspyrnukeppni

120. Framlengingu er lokið og það er vítaspyrnukeppni framundan.

119. ÖZIL MEÐ SKOT!! Fékk boltann fyrir utan teiginn en skaut beint á Buffon. Ítalska liðið er löngu búið að sætta sig við vítaspyrnukeppni.

113. INSIGNE MEÐ SKOT!! Var í teignum og lét vaða en Neuer sá við honum örugglega.

107. DRAXLER!!! Misskilningur í vörn ítalska liðsins sem verður til þess að Draxler kemst í boltann en skot hans fer aftur fyrir hann og yfir markið. Ágætis tilraun.

106. Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur. 

102. Þjóðverjar að sækja mikið þessa stundina. Nokkur ágætis skotfæri en öll þó framhjá markinu.

91. Leikurinn er hafinn.

Framlenging

90. Venjulegum leiktíma er lokið. Það er framlenging framundan.

89. DE SCIGLIO!!! Lét vaða fyrir utan teig en boltinn í hliðarnetið.

81. PELLE Í DAUÐAFÆRI!! Jonas Hector missti boltann og Ítalir keyrðu í sókn. Það endaði með því að Pelle fékk færi í teignum en hitti boltann illa.

78. MAAAAAARK!!! Ítalía 1:1 Þýskaland. LEONARDO BONUCCI SKORAR!! Öruggt í hægra hornið.

77. VÍTI!!!! Jerome Boateng handleikur knöttinn innan teigs eftir fyrirgjöf frá Florenzi.

74. PELLE!! Sciglio með fyrirgjöf frá vinstri inn á Pelle en skot hans fer framhjá. Ítalska liðið verður að setja meiri pressu á þýska liðið ef það ætlar sér áfram.

68. MARIO GOMEZ Í DAUÐAFÆRI!! Mesut Özil með sturlaða stungusendingu inn í teig og þar er Gomez kominn einn gegn Buffon og reynir hælspyrnu en Buffon ver yfir markið. Hvernig skoraði Gomez ekki?

65. MAAAAAAAAAARK!!!! Ítalía 0:1 Þýskaland. MESUUUUUT ÖZIL AÐ SKORA!! Mario Gomez er með hann á vinstri vængnum og finnur stungusendinguna á Hector. Hann kom svo með boltann inn á Özil sem þurfti bara að pota í boltann og í netið.

54. MÜLLER!!!! Þvílíkt dauðafæri. Hann fær boltann fyrir utan teiginn og kemst inn í teig og lætur vaða en Alessandro Florenzi bjargar á einhvern ótrúlegan hátt. Þvílíkur leikur.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur.

44. STURARO!!! Ítalska liðið keyrir í sókn. Það kemur bolti fyrir markið en fer í gegnum alla vörn Þjóðverja. Boltinn barst síðan út á Sturaro sem lét vaða fyrir utan teig en boltinn aftur fyrir endamörk. VÁ.

42. STÓRHÆTTA Í VÖRN ÍTALSKA LIÐSINS!!! Boltinn datt út fyrir Kroos fyrir utan teig en skotið hans var skelfilegt. Boltinn barst svo til Müller í teignum en skotið hans er slappt og beint á Buffon.

40. GOMEZ!!! Frábær fyrirgjöf fyrir markið en skallinn frá Mario Gomez fer yfir markið.

27. SCHWEINSTEIGER SKORAR....en það er dæmt af. Það kom fyrirgjöf inn í teiginn en Schweinsteiger braut af sér innan teigs. Hann kom þó boltanum í netið en búið að flauta.

15. Sami Khedira kemur af velli. Haltrar, sýnist þetta vera nárinn. Bastian Schweinsteiger kemur inn í hans stað.

11. Þetta byrjar af krafti. Þjóðverjar eru að halda boltanum vel en ekki að ná að skapa sér færi.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Það eru níu mínútur í að leikinn. Margir á því máli að sigurvegarinn úr þessari viðureign fer með sigur af hólmi á Evrópumótinu.

0. Þjóðverjar breyta um taktík. Þeir ætla að notast við þriggja manna vörn og spila með sóknarsinnaða bakverði.

0. Daniele De Rossi var tæpur hjá Ítölum fyrir leikinn en hann er ekki í byrjunarliðinu í dag.

0. Julian Draxler er ekki í byrjunarliði þýska liðsins í dag. Það eru afar óvæntar fréttir en hann skoraði og lagði upp í öruggum sigri á Slóvakíu í 16-liða úrslitum. Mario Götze er heldur ekki í liðinu.

0. Byrjunarliðin birtast hér fyrir neðan.

Ítalía: Buffon; Barzagli, Bonucci, Chiellini; Florenzi, Sturaro, Parolo, Giaccherini, De Sciglio; Pellè, Eder

Þýskaland: Neuer, Kimmich, Howedes, Hummels, Boateng, Hector, Khedira, Kroos, Ozil, Muller, Gomez.

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin
Loka