Ísland er úr leik á EM

Ísland er úr leik á Evr­ópu­mót­inu í knatt­spyrnu eft­ir að hafa fengið skell gegn gest­gjöf­um Frakka þegar þjóðirn­ar mætt­ust á Stade de France í átta liða úr­slit­um keppn­inn­ar í kvöld. Frakk­ar fóru með ör­ugg­an sig­ur af hólmi, 5:2, eft­ir að hafa verið 4:0 yfir í hálfleik.

Frakk­ar byrjuðu leik­inn bet­ur og eins og gegn Englandi þá lenti Ísland fljótt und­ir. Á 12. mín­útu komust Frakk­ar yfir þegar Oli­ver Giroud skoraði, en hann fékk þá langa send­ingu yfir vörn Íslands sem mis­reiknaði sig illi­lega og eft­ir­leik­ur­inn var auðveld­ur fyr­ir Giroud.

Með því gáfu Frakk­ar tón­inn á meðan ís­lenska liðinu gekk illa að fóta sig. Á 20. mín­útu kom annað markið og það var eft­ir fast leik­atriði. Antoine Griezmann tók þá horn­spyrnu, bolt­inn barst inn á markteig þar sem Paul Pogba kom á ferðinni og stangaði bolt­ann í netið eft­ir að hafa haft bet­ur í skalla­ein­vígi við Jón Daða Böðvars­son.

Mar­tröð und­ir lok fyrri hálfleiks

Frakk­ar réðu al­gjör­lega ferðinni í fram­hald­inu og ís­lenska liðið náði eng­um takti í sinn leik. Miði var þó enn mögu­leiki á þess­ari stundu, en Frakk­ar gerðu nán­ast út um leik­inn á síðustu mín­út­um fyrri hálfleiks. Á 43. mín­útu skoraði Payet með lúmsku skoti við víta­teigs­lín­una eft­ir snarpa sókn Frakka. Bolt­inn barst þá í gegn­um all­an pakk­ann og í hornið. Staðan 3:0.

Á loka­mín­útu fyrri hálfleiks kom svo al­gjört rot­högg þegar Griezmann slapp einn inn­fyr­ir eft­ir að hafa fengið stungu­send­ingu frá Giroud með hæln­um í gegn­um miðja vörn Íslands. Hann var einn á auðum sjó og vippaði lag­lega yfir Hann­es í mark­inu. Staðan 4:0 fyr­ir Frökk­um í hálfleik sem settu um leið met með því að vera fyrst­ir þjóða í loka­keppni EM til að skora fjög­ur mörk í fyrri hálfleik ein­um.

Tvö­föld skipt­ing í hálfleik

Ísland gerði tvö­falda skipt­ingu í hálfleik. Sverr­ir Ingi Inga­son leysti Kára Árna­son af hólmi í vörn­inni á meðan Al­freð Finn­boga­son tók stöðu Jóns Daða í sókn­inni. Íslenska liðið þurfti að breyta miklu eft­ir hlé og það gerðu strák­arn­ir. Á 56. mín­útu sendi Gylfi Þór Sig­urðsson bolt­ann fyr­ir frá vinstri þar sem Kol­beinn Sigþórs­son mætti eins og gamm­ur í teign­um og stýrði bolt­an­um í netið. Hans 22. landsliðsmark og staðan 4:1.

En Frakk­ar voru fljót­ir að slökkva alla von sem hafði kviknað í brjóst­um Íslend­inga. Aðeins þrem­ur mín­út­um eft­ir markið skoraði Oli­ver Giroud sitt annað mark og fimmta mark Frakka þegar hann skallaði auka­spyrnu Dimitri Payet í netið. Hann hafði bet­ur við Sverri Inga í skalla­ein­vígi og stýrði bolt­an­um í netið.

Mark strax eft­ir inn­komu Eiðs

Áfram réðu Frakk­ar ferðinni en strák­arn­ir héldu þó alltaf uppi bar­átt­unni. Á 83. mín­útu kom Eiður Smári Guðjohnsen inn fyr­ir Kol­bein og tók strax við fyr­irliðaband­inu. Aðeins mín­útu síðar minnkaði Ísland mun­inn. Ari Freyr Skúla­son sendi þá bolt­ann fyr­ir markið, beint á Birki Bjarna­son sem stökk hæst í teign­um og skoraði með lag­leg­um skalla. Staðan 5:2.

Bæði lið fengu sín fri eft­ir markið og ís­lensk­ir áhorf­end­ur létu vel í sér heyra eins og all­an leik­inn þrátt fyr­ir að á móti hafi blásið. Þegar lokaf­lautið gall, 5:2, héldu þeir áfram að syngja og klappa fyr­ir ís­lenska liðinu enda frammistaðan verið frá­bær á þessu móti. Nú er hins veg­ar komið að enda­lok­um að sinni.

Gest­gjaf­ar Frakka eru því komn­ir áfram í undanúr­slit móts­ins og mæta Þjóðverj­um í Marseille á fimmtu­dags­kvöld. Ísland er hins veg­ar úr leik eft­ir glæsta frammistöðu sem heillaði heims­byggðina.

Frakk­land 5:2 Ísland opna loka
skorar Oliver Giroud (12. mín.)
skorar Paul Pogba (20. mín.)
skorar Dimitri Payet (43. mín.)
skorar Antoine Griezmann (45. mín.)
skorar Oliver Giroud (59. mín.)
Mörk
skorar Kolbeinn Sigþórsson (56. mín.)
skorar Birkir Bjarnason (84. mín.)
fær gult spjald Samuel Umtiti (75. mín.)
Spjöld
fær gult spjald Birkir Bjarnason (58. mín.)
mín.
90
Liðsmynd tekin af íslenska liðinu með íslenska áhorfendur í þúsunda tali fyrir aftan. Glæsileg sjón.
90
Þrátt fyrir að Frakkar séu komnir áfram þá heyrist miklu meira í íslenskum áhorfendum þar sem þeir fagna íslenska liðinu. Þetta er gaman að sjá enda strákarnir gert okkur gríðarlega stolt!
90 Leik lokið
Frakkar fara áfram en glæsilegri þátttöku Íslands á EM er lokið.
90 Frakkland fær hornspyrnu
+2.
90 Antoine Griezmann (Frakkland) á skot sem er varið
+1. Gignac Fann Griezmann í teignum en Sverrir Ingi lokaði á skot hans.
90
Það verða að minnsta kostið tvær mínútur í uppbótartíma.
87 Sverrir Ingi Ingason (Ísland) á skot framhjá
Stökk hæð sína í teignum og hafði betur í einvígi við Mangala en náði ekki að stýra boltanum á markið.
87 Ísland fær hornspyrnu
Ísland fær annað horn.
87 Ísland fær hornspyrnu
Birkir Már kominn upp að endamörkum, sendir fyrir en Mangala bjargaði í horn.
86 Moussa Sissoko (Frakkland) á skot framhjá
Í fínu færi en þrumar yfir markið hægra megin í teignum.
85 Kingsley Coman (Frakkland) á skot sem er varið
Spilaði sig listilega inn á teig en skotið beint á Hannes sem var ekki í neinum vandræðum.
84 MARK! Birkir Bjarnason (Ísland) skorar
5:2 - Já sko! Ari Freyr sendi boltann fyrir markið, Birkir Bjarnason stökk upp í teignum og skallaði í netið!
83 Eiður Smári Guðjohnsen (Ísland) kemur inn á
Og íslenskir áhorfendur ærast af fögnuði. Aron Einar gengur beint að honum og lætur Eið fá fyrirliðabandið.
83 Kolbeinn Sigþórsson (Ísland) fer af velli
81
Eiður Smári er að gera sig kláran fyrir Ísland.
79 Kingsley Coman (Frakkland) kemur inn á
79 Dimitri Payet (Frakkland) fer af velli
79 Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið
Gylfi lætur vaða með mann í sér, Mangala fór fyrir skotið og tók allan kraft úr því. Boltinn endar að lokum hjá Hugo Lloris.
78
Skyndisókn Íslands í uppsiglingu en Alfreð of lengi að hugsa og boltinn auðveldlega tekinn af honum.
77
Kominn pirringur í íslenska liðið núna. Gylfi vildi hendi á Paul Pogba og lét það fara í taugarnar á sér og í kjölfarið sparkaði Alfreð í Pogba og fékk tiltal.
76
Frakkar hafa varist þessum innköstum vel hingað til og það varð engin breyting á því nú.
76
Ísland fær innkast á góðum stað. Aron Einar mætir til leiks.
75 Samuel Umtiti (Frakkland) fær gult spjald
Togaði í Jóhann Berg og stöðvaði skyndisókn Íslands sem var í uppsiglingu.
72 Ellaquim Mangala (Frakkland) kemur inn á
Leikmaður Manchester City tekur stöðu Arsenal-mannsins í miðri vörninni.
72 Laurent Koscielny (Frakkland) fer af velli
71
Payet tók hornið en Ísland hreinsar.
70 Frakkland fær hornspyrnu
Payet fór illa með Sverri Inga en Hannes varði og bjargaði í horn.
70
Frakkar fljótir að hreinsa og geysast fram.
70
Gylfi Þór býr sig undir að taka aukaspyrnu á vallarhelmingi Frakka.
69
Birkir Bjarnason og Jóhann Berg eru nú búnir að skipta um kanta. Birkir kominn á þann hægri og Jóhann er vinstra megin.
68
Frakkar reyna einhverja sýningu í skyndisókn sinni sem endar með því að hún rennur út í sandinn.
67
Gylfi reynir að þræða boltanum í gegnum vörnina þar sem Birkir stingur sér á milli en Laurent Koscielny bjargar á síðustu stundu.
64
Ekkert kom úr innkastinu. Íslendingar vilja hins vegar vítaspyrnu eftir að boltinn virtist hafa farið í höndina á Patrice Evra. En ekkert dæmt.
64 Ísland fær hornspyrnu
Frakkar hreinsa frá en nú langt innkast.
63 Sverrir Ingi Ingason (Ísland) á skalla sem er varinn
Jóhann Berg með hornið, beint á kollinn á Sverri Inga sem er í dauðafæri en Lloris bjargar hreint meistaralega!
63 Ísland fær hornspyrnu
61 Alfreð Finnbogason (Ísland) á skot framhjá
Sending inn á teig, Alfreð kemst í boltann en skot hans yfir úr erfiðu færi.
60 André-Pierre Gignac (Frakkland) kemur inn á
60 Oliver Giroud (Frakkland) fer af velli
Strax eftir seinna markið. Gott dagsverk hjá honum.
59 MARK! Oliver Giroud (Frakkland) skorar
5:1 - Aukaspyrna. Payet tók hana, sendi inn á teig þar sem Giroud vinnur Sverri Inga í skallaeinvígi. Hannes var líka kominn út í boltann en Giroud skilaði honum í netið.
58 Birkir Bjarnason (Ísland) fær gult spjald
Birkir er sótillur. Strujaði Giroud sem lá lengi eftir. Birkir er nú kominn í bann ef Ísland kemst áfram.
56
Þetta var það sem við þurftum!
56 MARK! Kolbeinn Sigþórsson (Ísland) skorar
4:1 - Gylfi Þór fékk boltann vinstra megin, sendi fyrir þar sem Kolbeinn Sigþórsson henti sér fram á markteignum og stýrði boltanum í netið!
55
Tækifæri fyrir langt innkast. Aron Einar undirbýr sig.
54
Íslenskir stuðningsmenn syngja "Ég er kominn heim" hátt og snjallt. Þeir eru stoltir sama hvað. Það heyrist hins vegar ekki múkk í frönskum áhorfendum.
53 Jóhann Berg Guðmundsson (Ísland) á skot framhjá
Ísland reynir að byggja upp sókn. Alfreð leggur boltann fyrir Jóhann Berg sem hittir boltann hins vegar afleitlega og þrumar honum hátt upp í stúku.
52 Moussa Sissoko (Frakkland) á skot framhjá
Hættulítið af töluverðu færi og Hannes er með þetta á hreinu.
50 Dimitri Payet (Frakkland) á skot framhjá
Frakkar halda áfram að valda usla. Griezmann reyndi að koma sér í færi en Ragnar hreinsaði. Þar kom Payet á ferðinni en skot hans aldrei á leiðinni á markið.
46 Seinni hálfleikur hafinn
Ísland tekur miðju eftir að hafa gert tvöfalda skiptingu.
46 Sverrir Ingi Ingason (Ísland) kemur inn á
46 Kári Árnason (Ísland) fer af velli
46 Alfreð Finnbogason (Ísland) kemur inn á
46 Jón Daði Böðvarsson (Ísland) fer af velli
46
Tvöföld skipting hjá Íslandi í hálfleik. Sverrir Ingi Ingason og Alfreð Finnbogason búa sig undir að koma inná.
45
Frakkar settu met hér í fyrri hálfleik. Þetta er í fyrsta sinn í sögu lokakeppni EM sem lið skorar fjögur mörk í fyrri hálfleik einum. Þess má geta að Frakkar höfðu aldrei skorað í fyrri hálfleik á þessu móti fyrir leikinn í kvöld.
45 Hálfleikur
Skelfileg staða hjá íslenska liðinu í hálfleik. Tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks með tveggja mínútna millibili.
45 MARK! Antoine Griezmann (Frakkland) skorar
4:0 - Ja hérna hér, ég var að skrifa að nú mega menn ekki missa hausinn. Giroud með hælsendingu í gegnum miðja vörn Íslands. Griezmann er þar kominn aleinn í gegn og vippar boltanum yfir Hannes.
44
Enn grátlegra að fá markið á sig svona rétt fyrir hálfleikinn. Nú mega menn ekki missa hausinn!
43 MARK! Dimitri Payet (Frakkland) skorar
3:0 - Grátlegt. Bacary Sagna sendi fyrir, Griezmann var í boltanum og lagði hann að lokum fyrir Dimitri Payet sem skaut að marki með fjóra íslenska leikmenn hlaupandi í áttina að sér. Skotið virtist ekkert merkilegt en boltinn fór í hornið án þess að Hannes kæmi vörnum við.
42 Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið
Boltinn fór yfir allan pakkann, skoppaði einu sinni í teignum sem setti Lloris í vandræði en hann náði áttum að lokum.
41
Ísland fær aukaspyrnu á vallarhelmingi Frakka. Kári og Ragnar skokka inn í teig á meðan Gylfi býr sig undir að sparka.
40
Giroud var innilokaður en náði samt að vinna Birki Má og Kára í skallaeinvígi. Hannes kom svo til bjargar áður en Griezmann náði til boltans.
39 Blaise Matuidi (Frakkland) á skot framhjá
Payet kominn upp að endamörkum, sendi boltann út þar sem Matuidi ætlaði heldur betur að smyrj'ann. Hann hins vegar hitti boltann afleitlega og hann rúllar langt, langt framhjá markinu.
38
Það er ekkert í gangi núna. Frakkar dóla í öðrum gír og senda sín á milli og láta íslensku leikmennina hlaupa fram og til baka.
37
Já dömur mínar og herrar, það fer bylgja um á meðal áhorfenda á Stade de France. Gerist ekki klassískara!
35
Íslenskir stuðningsmenn taka víkingafagnið fræga í stúkunni. Þeir eru hvergi nærri hættir. Á meðan syngja Frakkar og tralla.
34
Frakkar einoka boltann þessa stundina og íslenska liðinu verður lítt ágengt.
33
Horfum aðeins til baka til að hressa okkur við. Síðast þegar íslenska liðið lenti 2:0 undir þá fór Ísland með 3:2 sigur af hólmi. Það var í vináttuleik gegn Grikkjum í aðdraganda EM.
31
En það er ekki nógu langt og Patrice Evra skallar boltann frá.
31
Aron Einar býr sig undir að taka langt innkast.
30
Einhverra hluta vegna breyttu Frakkar hins vegar um spyrnumann. Nú tók Payet hornið og strákarnir hreinsa auðveldlega.
29
Hornspyrna á sama stað og markið kom upp úr áðan.
29 Frakkland fær hornspyrnu
28
Það vantar alla ró í íslenska liðið. Um leið og boltinn er unninn fara menn nánast á taugum og liðið nær ekki nema tveimur, þremur sendingum á milli sín áður en Frakkar vinna boltann. Allir íslensku leikmennirnir á eigin vallarhelmingi núna.
27
Emil Hallfreðsson og Hörður Björgvin Magnússon eru farnir að hita upp hjá Íslandi. Eiður Smári Guðjohnsen fylgir þeim líka.
25
Aron Einar hendir sér fyrir skot hjá Sissoko!
25 Jón Daði Böðvarsson (Ísland) á skot framhjá
Langt innkast, Kolbeinn fleytti boltanum áfram þar sem Jón Daði var mættur. Hann kom tá í boltann en náði ekki að stýra honum á markið.
24
Ísland fær innkast við hornfánann. Nú kemur Aron Einar til að kasta.
24
Blaise Matuidi lætur sig detta innan teigs eftir baráttu við Kára en markspyrna dæmd.
22
Nú er bara áfram gakk, strákar! Þetta er hins vegar má segja mesta mótlætið sem Ísland hefur lent í hingað til á þessu móti. Hvernig bregðast strákarnir við?
20 MARK! Paul Pogba (Frakkland) skorar
2:0 - Antoine Griezmann með spyrnuna, hárnákvæma inn á markteig þar sem Paul Pogba kemur á ferðinni og skallar boltann í netið. Hefur betur í baráttu við Jón Daða og skallar boltann yfir Birki Má sem stóð á fjærstönginni.
19 Frakkland fær hornspyrnu
Aftur reyna Frakkar háa sendingu innfyrir vörnina eins og í markinu. Það skapar stórhættu áður en Ari hreinsar í horn.
18 Jón Daði Böðvarsson (Ísland) á skalla sem er varinn
Jóhann Berg sendir fyrir, Jón Daði í mikilli háloftabaráttu og nær ekki krafti í skallann.
17
Paul Pogba straujar Jón Daða. Fær tiltal.
16
Ari Freyr tekur aukaspyrnu inn á teiginn, en spyrnan er of föst og Lloris í litlum vandræðum með að handsama boltann.
14
Frakkar hins vegar vel á verði, þó Aron hafi grýtt boltanum inn á teig, og hreinsa frá.
14
Aron tekur langt innkast. Munum að við jöfnuðum nánast strax gegn Englendingum!
12 MARK! Oliver Giroud (Frakkland) skorar
1:0 - Frakkar komast yfir og stuðningsmenn þeirra ærast. Patrice Evra með sendingu úr vörninni, Birkir Már reynir að hoppa en missir af boltanum. Giroud er þá kominn einn í gegn, vinstra megin í teignum, og leggur boltann framhjá Hannesi.
12
Það er hætt að rigna sem stendur, en völlurinn er hundblautur og boltinn getur verið erfiður við að eiga. Aron Einar var nú næstum búinn að missa hann á hættulegum stað.
11
Ragnar straujar Sissoko sem vill fá aukaspyrnu. En þetta var bara frábær tækling hjá okkar manni sem hefur verið óaðfinnanlegur í þessari keppni.
10 Birkir Bjarnason (Ísland) á skot framhjá
Kolbeinn sem fyrr ógnarsterkur í loftinu, skallar boltann fyrir fætur Birkis sem lætur vaða en skotið er laust og fer framhjá.
8
Jón Daði missir boltann og Aron sparkar Payet niður í kjölfarið. Fær tiltal frá hollenska dómaranum og er nú á hættusvæði. Aron er með spjald á bakinu og fer í bann í næsta leik, komist Ísland þangað, ef hann fær gult í kvöld.
7
Sissoko með hættulega sendingu inn á teiginn. Hannes þurfti að teygja sig í boltann og náði honum að lokum, sem betur fer því annars hefði allt verið opið fyrir Antoine Griezmann.
6 Dimitri Payet (Frakkland) á skot sem er varið
Virkilega vel spilað hjá Frökkum. Fá að leika með boltann við vítateiginn, Moussa Sissoko leggur hann svo fyrir fætur Payet sem á skot að marki. Það fer beint á Hannes, sem missir boltann hins vegar frá sér en nær honum aftur áður en Oliver Giroud kemur askvaðandi.
5
Birkir Már með langa sendingu inn á teig. Þar er Jóhann Berg á ferðinni en nær ekki að taka á móti boltanum.
3 Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið
Tekur vel á móti boltanum í teignum með tvo menn í sér. Náði að snúa líka en skotið laust og beint á Lloris í markinu.
2
Dimitri Payet með spyrnuna, en Paul Pogba braut á Ragnari innan teigs og aukaspyrna dæmd.
1
Aron Einar harður í horn að taka. Frakkar fá aukaspyrnu á vallarhelmingi Íslands.
1 Leikur hafinn
Frakkar taka miðju. Áfram Ísland!
0
Nú eru formsatriðin að baki og ballið getur farið að byrja. Ísland spilar í sínum hvítu búningum í kvöld og Hannes hefur hafsjó íslenskra stuðningsmanna fyrir aftan mark sitt í fyrri hálfleik.
0
Það var heldur betur tekið undir hjá stuðningsmönnum beggja þjóða. Þvílík stemning!
0
Gæsahúð. Gæsahúð!
0
Nú er komið að þjóðsöngvum. Við byrjum á Lofsöngi okkar Íslendinga.
0
Nú er búið að stilla öllu upp, risatreyjur beggja liða á sínum stað og leikmenn eru að gera sig klára til að ganga inná.
0
Ég verð að segja eins og er að ég er orðinn MJÖG spenntur. Völlurinn er gjörsamlega troðfullur, um 80 þúsund manns láta vel í sér heyra og stemningin er ótrúleg!
0
Nú eru liðin gengin til búningsherbergja fyrir síðustu hvatningarorðin. Á meðan er völlurinn undirbúinn fyrir hina reglubundnu sýningu sem er fyrir hvern leik. Alltaf mikið sjónarspil.
0
Vá - þetta er mögnuð sjón. Stuðningsmenn beggja liða; Frakkar, Íslendingar og allir aðrir eru að taka hið fræga víkingafagn saman. Magnað að horfa yfir völlinn.
0
Það er þungskýjað og eiginlega bara frekar kalt í veðri nú þegar um 25 mínútur eru í leik. Svona íslenskt sumarveður, gætu einhverjir sagt. Eigum við ekki bara að segja að það sé jákvætt...?
0
Alls eru níu leikmenn í byrjunarliði Ísland með gult spjald á bakinu og fái þeir spjald í kvöld verða þeir í banni í undanúrslitunum - komist Ísland þangað. Aðeins þeir Ragnar Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson "mega" fá spjald í kvöld.
0
Eins og fyrir hina leikina þá eru Ferðalok Óðins Valdimarssonar spiluð. Og ef ég bara gæti útskýrt stemninguna og gæsahúðina sem fylgir því að hlusta á íslenska áhorfendur taka undir. Hreint ólýsanlegt!
0
Samuel Umtiti, sem leikur í miðri vörn Frakka, spilar sinn fyrsta landsleik hér í kvöld. Honum er heldur betur hent í djúpu laugina! Það er þó af illri nauðsyn þar sem Adil Rami er í banni – sem og N‘Golo Kanté. En Umtiti er nú enginn aukvisi og samdi meðal annars við Barcelona á dögunum.
0
Nú kemur allur íslenski hópurinn inn á völlinn til upphitunar. Það er óhætt að segja að það heyrist vart mælt mál hér á vellinum, svo miklar eru undirtektirnar!
0
Nú koma frönsku leikmennirnir inn á völlinn og byrja á að hlaupa til stuðningsmanna sinna. Það er magnað að sjá þá veifa þúsundum franskra fána. Virkilega tilkomumikið.
0
Nú skokka íslensku markverðirnir út til upphitunar ásamt Guðmundi Hreiðarssyni markvarðarþjálfara. Þeim er vel fagnað eins og gefur að skilja og Hannes hleypur og heilsar á móti.
0
Nú þegar klukkutími er í leik er stemningin - að sjálfsögðu - mögnuð! Nú rétt í þessu var einn íslenskur stuðningsmaður að biðja ástkonu sinnar í stúkunni, á stóra skjánum. Falleg stund og auðvitað var svarið já!
0
Byrjunarliðið er komið og það kemur fáum á óvart að það er óbreytt!
0
Við bíðum nú eftir byrjunarliðunum sem ættu að fara að berast fljótlega. Verður sama byrjunarlið Íslands fimmta leikinn í röð?
0
Það ríkir gríðarleg eftirvænting á meðal Íslendinga sem hafa fjölmennt hingað til Parísar og alls staðar má sjá fólk merkt Íslandi í bak og fyrir. Við útsendarar Morgunblaðsins og mbl.is kíktum á mannlífið í gærkvöldi og stemningin var mögnuð. Það er því rétt hægt að ímynda sér hvernig hún er núna!
0
Eins og við vitum þá er þetta ekkert flókið, tapliðið hér í kvöld hefur lokið þátttöku á mótinu. Það þýðir að verði jafnt eftir venjulegan leiktíma þá er framlengt og ef enn er jafnt - vítaspyrnukeppni!
0
Frakkar vonast til þess að sextán ára bið þeirra ljúki í kvöld, en ef liðið kemst áfram í undanúrslit er það í fyrsta sinn frá árinu 2000 sem Frakkar afreka það. Þeir urðu þá að lokum Evrópumeistarar, en hafa síðan þá ekki staðið undir væntingum á EM.
0
Ísland og Frakkland mættust fyrst í landsleik árið 1957 þar sem Frakkar unnu stórsigur, 8:0. Þjóðirnar hafa alls mæst 11 sinnum og aldrei hefur Ísland hrósað sigri. Frakkar hafa unnið átta leiki og þrír enduðu með jafntefli.
0
Sigurliðið fer áfram í undanúrslit þar sem Þjóðverjar bíða í Marseille á fimmtudagskvöldið. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Portúgal og Wales, og því er Ísland ein af fimm þjóðum sem eftir eru á EM!
0
Góða kvöldið lesendur góðir og verið hjartanlega velkomnir með mbl.is hingað á Stade de France í útjaðri Parísar þar sem Ísland mætir Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Það er ekkert slor!
Sjá meira
Sjá allt

Frakkland: (4-5-1) Mark: Hugo Lloris. Vörn: Bacary Sagna, Samuel Umtiti, Laurent Koscielny (Ellaquim Mangala 72), Patrice Evra. Miðja: Moussa Sissoko, Paul Pogba, Antoine Griezmann, Blaise Matuidi, Dimitri Payet (Kingsley Coman 79). Sókn: Oliver Giroud (André-Pierre Gignac 60).
Varamenn: Steve Mandanda (M), Benoit Costil (M), Christophe Jallet, Yohan Cabaye, André-Pierre Gignac, Anthony Martial, Morgan Schneiderlin, Ellaquim Mangala, Lucas Digne, Kingsley Coman.

Ísland: (4-4-2) Mark: Hannes Þór Halldórsson. Vörn: Birkir Már Sævarsson , Kári Árnason (Sverrir Ingi Ingason 46), Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason. Miðja: Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason. Sókn: Kolbeinn Sigþórsson (Eiður Smári Guðjohnsen 83), Jón Daði Böðvarsson (Alfreð Finnbogason 46).
Varamenn: Ögmundur Kristinsson (M), Ingvar Jónsson (M), Haukur Heiðar Hauksson, Hjörtur Hermannsson, Sverrir Ingi Ingason, Alfreð Finnbogason, Rúnar Már Sigurjónsson, Theódór Elmar Bjarnason, Hörður Björgvin Magnússon, Emil Hallfreðsson, Arnór Ingvi Traustason, Eiður Smári Guðjohnsen.

Skot: Frakkland 12 (8) - Ísland 12 (7)
Horn: Ísland 4 - Frakkland 4.

Lýsandi: Andri Yrkill Valsson
Völlur: Stade de France
Áhorfendafjöldi: 76.833

Leikur hefst
3. júlí 2016 19:00

Aðstæður:
Íslenskt sumarveður má segja. Um 16 stiga hiti og skúrir þegar flautað er til leiks.

Dómari: Björn Kuipers, Hollandi
Aðstoðardómarar: Sander van Roekel og Erwin Zeinstra, Hollandi

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

Útsláttarkeppnin