Portúgal sem var einungis einu sinni yfir eftir venjulegan leiktíma er Evrópumeistari í knattspyrnu karla eftir 1:0 sigur liðsins gegn Frökkum, gestgjöfum mótsins, á Stade de France í kvöld.
Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma, en helsta fréttin úr venjulegum leiktíma var sú að Cristiano Ronaldo fór útaf meiddur um miðbik fyrri hálfleiks. Éder skoraði sigurmark Portúgals í síðari hálfleik framlengingarinnar.
Portúgal sem tapaði 1:0 í úrslitaleik Evrópumótsins á heimavelli árið 2004, gegn Grikklandi, varð í kvöld Evrópumeistari í fyrsta skipti í sögunni.
120. Leikið lokið. Portúgal er Evrópumeistari eftir 1:0 sigur gegn Frökkum. Það var Éder sem skoraði sigurmark portúgalska liðsins.
120. Anthoy Martial brennir af í góðu skotfæri.
120. Tveimur mínútum bætt við venjulegan leiktíma í framlengingunni.
118. José Fonte er áminntur með gulu spjaldi.
114. Paul Pogba er áminntur með gulu spjaldi.
110. Skipting hjá Frakklandi. Moussa Sissoko fer af velli og Anthony Martial kemur inná.
109. MAAARK. Staðan er 1:0 fyrir Portúgal. Éder kemur Portúgal yfir með föstu og hnitmiðuðu skoti af um það bil 25 metra færi. Éder sem kom inná sem varamaður fyrir Portúgal gæti reynst hetja liðsins.
108. Raphael Gurreiro með skot í þverslána með skoti úr aukaspyrnu sem Portúgalar áttu ekki að fá. Mark Clattenburg verður feginn að boltinn hafnaði ekki í netinu þegar hann sér endursýninguna af brotinu sem leiddi til aukaspyrnunnar.
107. Laurent Koscielny er ranglega áminntur með gulu spjaldi.
106. Seinni hluti framlengingarinnar er hafinn.
105. Fyrri hluta framlengingarinnar er lokið.
104. Éder með skalla eftir hornspyrnu Quaresma sem Lloris ver út í vítateiginn og Frakkar ná að bægja hættunni frá.
102. Frakkar eru líklegri til þess að skora þessa stundina.
98. William Carvalho er áminntur með gulu spjaldi.
97. Blaise Matuidi er áminntur með gulu spjaldi.
96. Raphael Guerreiro er áminntur með gulu spjaldi.
95. Pepa með skalla rétt framhjá marki Frakka. Pepe var hins vegar flaggaður rangstæður og markið hefði því ekki staðið.
94. Framlengingin fer rólega af stað eins og við mátti búast. Bæði lið varkár og litlar áhættur teknar.
91. Fyrri hluta framlengingarinnar er hafinn.
90. Venjulegum leiktíma er lokið. Staðan er markalaus og leikurinn verður framlengdur.
90. Gignac hársbreidd frá því að tryggja Frökkum Evrópumeistaratitilinn þegar hann skýtur boltanum í stöngina. Gignac snýr Pepe af sér og skýtur boltanum framhjá Rui Patricio, en boltinn hafnar í stönginni. Griezmann er síðan nálægt því að hirða frákastið og setja boltann í autt markið.
90. Þremur mínútum bætt við venjulegan leiktíma.
89. Gignac við það að reka stóru tána í boltann eftir fyrirgjöf frá Sagna, en boltinn endar í fanginu á Patricio.
84. Moussa Sissoko með bylmingsskot og enn ver Rui Patricio.
81. Nani með skot utan vítateigs sem fer yfir mark Frakka.
80. Samuel Umtiti er áminntur með gulu spjaldi.
79. Ricardo Quaresma með hjólhestaspyrnu sem Hugo Lloris ver auðveldlega.
78. Skipting hjá Frakklandi. Oliver Giroud fer af velli og André-Pierre Gignac kemur inná.
78. Skipting hjá Portúgal. Renato Sanchez fer af velli og Éder kemur inná.
75. Oliver Giroud fær stungusendingu inn fyrir vörn Portúgala, en Rui Patricio fast skot hans vel.
72. Mikil hætta upp við mark Portúgala eftir hornspyrnu, en Frakkar ná ekki að pota tánni í boltann og setja boltann í netið.
67. Coman með þrumuskot sem fer töluvert framhjá marki Portúgala.
66. Skipting hjá Portúgal. Adrien Silva fer af velli og Joao Moutinho kemur inná.
65. Griezmann með skalla yfir mark Portúgala í upplögðu marktækifæri eftir fyrirgjöf frá Coman sem hefur komið sterkur inní lið Frakka.
62. Joao Mario er áminntur með gulu spjaldi.
58. Coman er fljótur að láta til sín taka þegar hann rennir boltaunm í hlaupaleiðina á Griezmann sem nær ágætis skoti af vítateigshorninu, en Rui Patricio ver skot Griezmann örugglega.
57. Skipting hjá Frakklandi. Dimitri Payet fer af velli og Kingsley Coman kemur inná.
54. Pogba með skot af löngu fær sem fer yfir mark Portúgala.
53. Frakkar hefja síðari hálfleikinn af meiri krafti líkt og þeir gerðu í fyrri hálfleik. Fyrsta mark dagsins á þó enn eftir að líta dagsins ljós.
46. Seinni hálfleikur er hafinn.
45. Staðan er markalaus í hálfleik. Frakkar byrjuðu betur, en Portúgalar sem leika á Cristiano Ronaldo sem fór meiddur af velli hafa vaxið ásmegin eftir því sem liðið hefur á hálfleikinn.
45. Joao Mario með hættulega fyrirgjöf inná vítateig Frakka, en boltinn fer aftur fyrir endamörk.
45. Evra og Quaresma eru komnir inná völlinn á nýjan leik.
45. Höfuð Patrice Evra og Ricardo Quaresma skella saman og þeir liggja eftir á vellinum. Vonandi að þeir nái að hrista þetta af sér og halda leik áfram.
38. José Fonte nær skalla eftir hornspyrnu sem fer yfir mark Frakka.
37. Portúgalar ná að halda boltanum aðeins betur innan liðsins þessa stundina og byggja upp sóknir án þess þó að ná að skapa hættu upp við mark Frakka.
34. Cédric er áminntur með gulu spjaldi.
33. Sissoko með frábæran snúning inni á vítateig Portúgala og nær fínu skoti sem Rui Patricio ver vel.
32. Frakkar áfram meira með boltann og Portúgalar bíða færis til þess að sækja hratt.
25. Skipting hjá Portúgal. Cristiano Ronaldo fer af velli og Ricardo Quaresma kemur inná.
23. Adrian Silva tekur boltann á lofti og tekur skot af löngu færi sem fer framhjá marki Frakka.
22. Sissoko með frábæran sprett og nær góðu skoti rétt utan vítateigs sem fer í Pepe og yfir mark Portúgala. Hornspyrna Rui Patricio grípur hornspyrnu Frakka.
20. Cristiano Ronaldo kemur aftur inná og ætlar greinilega að harka af sér hnémeiðslin.
18. Cristiano Ronaldo er sestur aftur og útlitið er ekki bjart með áframhaldandi þátttöku hans í leiknum. Það verður þó líklega allt reynt til þess að hann geti haldið leik áfram.
15. Frakkar eru meira með boltann og Portúgalar ætla greinilega að liggja til baka og beita skyndisóknum.
9. Griezmann með frábæran skalla sem Rui Particio ver frábærlega.
8. Ronaldo fær högg á vinstra hnéð og situr sárkvalinn á vellinum. Ronaldo haltar af velli, en kemur svo fljótlega inn á völlinn aftur.
7. Griezmann með skot úr þröngu færi og hittir ekki markið. Leikurinn byrjar afar fjörlega.
5. Sissoko með fyrsta skot Frakka, en það fer himinhátt yfir mark Portúgala.
4. Nani með fyrstu marktilraun leiksins. Portúgalski framherjinn kemst í gott skotfæri en skýtur yfir mark Frakka.
1. Leikurinn er hafinn.
0. Pepe, varnarmaður portúgalska liðsins, missti af undanúrslitaleik liðsins gegn Wales vegna meiðsla, en hann hefur náð sér af þeim meiðslum sem öftruðu honum frá þátttöku í þeim leik. Pepe er klár í slaginn og er í byrjunarliði portúgalska liðsins í dag.
0. Antoine Griezmann, sóknartengiliður franska liðsins, er markahæsti leikmaður mótsins með sex mörk, en hann hefur skorað þremur mörkum meira en Olivier Giroud og Dimitri Payet, samherjar sínir í franska liðinu. Cristiano Ronaldo og Nani, framherjar portúgalska liðsins, hafa einnig skorað þrjú mörk í mótinu.
0. Frakkland er mun betra sigurhlutfall í innbyrðisviðureignum þjóðanna. Frakkar hafa borið sigur úr býtum í 18 leikjum, Portúgalar hafa hins vegar borið sigurorð í fimm leikjum og aðeins einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Frakkar hafa skorað 49 mörk í leikjum liðanna og Portúgalar 28. Frakkar hafa haft betur í síðustu tíu leikjum liðanna og síðasti sigur Portúgal gegn Frakklandi kom árið 1974 og Frakkar hafa sigrað í 14 af síðustu 16 leikjum liðanna.
0. Portúgal er taplaust í síðustu 14 mótsleikjum sem Cristiano Ronaldo hefur tekið þátt í, en síðasti tapleikur liðsins með Ronaldo innanborðs var 4:0 tap liðsins gegn Þýskalandi á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2014. Ronaldo hefur skorað 61 mark í 132 landsleikjum fyrir Portúgal á meðan franski leikmannahópurinn hefur skorað 70 mörk til samans. Ronaldo hefur hins vegar ekki tekist að skora í þeim þremur leikjum Portúgala sem hann hefur leikið gegn Frakklandi.
0. Frakkar hafa tvisvar sinnum orðið Evrópumeistarar, annars vegar árið 1984 þar sem liðið lagði Spán að velli, 2:0, í úrslitaleik og hins vegar árið 2000, en liðið bar þá sigur úr býtum gegn Ítalíu í úrslitleiknum. Michel Platini fór á kostum í liði Frakka árið 1984 og skoraði níu mörk í mótinu og úrslitin í mótinu árið 2000 réðust með gullmarki David Trezeguet.
0. Portúgal hefur aldrei lyft Evrópubikarnum, en liðið komst næst því þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Grikklandi, 1:0, í úrslitaleik mótsins í Lissabon árið 2004. Portúgal féll síðan úr leik í undanúrslitum árið 1984, 2000 og 2012.
Byrjunarlið Frakklands: Lloris - Sagna, Koscielny, Umtiti, Evra - Pogba, Matuidi - Sissoko, Griezmann, Payet - Giroud.
Byrjunarlið Portúgal: Rui Patrício - Cédric, Pepe, Fonte, Guerreiro - William - Sanches, Adrien Silva, João Mário - Nani, Ronaldo.