Ísland kvaddi Evrópumót kvenna í knattspyrnu með 3:0 tapi gegn Austurríki í lokaleik sínum í Hollandi. Austurríska liðið komst í 2:0 undir lok fyrri hálfleiks og var sigurinn aldrei í hættu. Ísland endaði því án stiga á botni C-riðils en Austurríki hlaut sjö stig og vann riðilinn.
Austurríki var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og erfitt að fá það á tilfinninguna að íslenska liðið vildi kveðja Evrópumótið með stolti eins og leikmenn höfðu fullyrt fyrir leik. Nina Burger komst í dauðafæri strax á 3. mínútu, eftir hornspyrnu, en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði vel frá henni. Guðbjörg varði aftur vel um miðjan fyrri hálfleik eftir skot Nicolel Billa úr teignum.
Fanndís Friðriksdóttir átti bestu tilraun Íslands í fyrri hálfleik á 26. mínútu, en eftir lipran sprett fór skot hennar rétt framhjá.
Austurríki komst yfir átta mínútum fyrir leikhlé þegar Guðbjörg gerði sig seka um skelfileg mistök. Fyrirgjöf frá hægri, sem virtist auðveld viðureignar fyrir hana, skoppaði af brjóstkassa Guðbjargar til Söruh Zadrazil sem skoraði auðveldlega.
Nú þurfti Ísland að sækja en eins og allt þetta mót gekk það illa og sjaldnast tókst að halda boltanum vel og byggja upp almennilegar sóknir. Það var helst að Hólmfríður Magnúsdóttir, sem fékk tækifæri í byrjunarliðinu, sýndi því áhuga að skapa eitthvað fram á við en með litlum stuðningi eða árangri.
Austurríki komst svo í 2:0 rétt fyrir leikhlé eftir hornspyrnu, þegar varnarmenn Íslands sváfu á verðinum og Nina Burger átti skalla sem fór af Zadrazil og í netið. Þar með var verstu 45 mínútum Íslands á mótinu, án vafa, lokið.
Seinni hálfleikurinn var frekar tíðindalítill. Austurríska liðið færði sig aftar á völlinn og varði sitt forskot, án teljandi vandræða. Ísland fékk nokkrar aukaspyrnur og innköst sem hefðu vel getað skapað hættu en tókst ekki að nýta sér það. Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Sandra María Jessen komu inn á og spiluðu þar með sínar fyrstu mínútur á mótinu, en tókst ekki að færa kraft í sóknarleikinn frekar en öðrum.
Austurríki skoraði svo þriðja og síðasta mark sitt í lokin, þegar Stefanie Enzinger fylgdi á eftir skoti sem Guðbjörg varði vel.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður ítarlega um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.