Allir tilbúnir að mæta Serbum

Guðjón Valur Sigurðsson
Guðjón Valur Sigurðsson Guenter Schroeder

„Ég tel það og vona að við eigum möguleika á að sigra Serba og tryggja okkur þar með um leið sæti á Evrópumótinu í Noregi á næsta ári," segir Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, en annað kvöld klukkan 20 mætir íslenska landsliðið því serbneska í síðari leik þjóðanna um sæti á Evrópumótinu í Noregi í janúar á næsta ári. Serbar unnu fyrri leikinn á heimavelli sínum fyrir viku, 30:29. Þar af leiðir að Guðjón og félagar verða að vinna minnst með tveggja marka mun annað kvöld til þess að tryggja sér farseðilinn á EM.

"Serbar eru með hörkulið sem er til alls líklegt. En ef við fáum fulla höll af stuðningsmönnum og svipaða stemningu og á leiknum við Svía í fyrra þá er ég nokkuð viss um að við verðum klárir í slaginn og munum fara með sigur af hólmi," sagði Guðjón Valur en íslenska landsliðið hefur æft af kostgæfni alla vikuna undir stjórn Alfreðs Gíslasonar landsliðsþjálfara.

Síðdegis í gær hélt íslenska landsliðið austur í Hveragerði þar sem það dvelur á Hótel Örk fram á sunnudag er það kemur í bæinn og beint í leikinn.

Serbar komu til landsins rétt fyrir miðnætti og dvelja á hóteli hér í Reykjavík fram að leiknum. Þeir æfa í Laugardalshöllinni um miðjan dag í dag og aftur snemma í fyrramálið.

"Við þurfum að halda vörninni sterkri eins og í fyrri leiknum. Þá þarf Birkir Ívar að eiga jafngóðan leik og ytra auk þess sem við verðum að hressa upp á vinstri vænginn í sókninni frá fyrri leiknum. Gangi þessi atriði eftir þá er ég viss um að við verðum illviðráðanlegir.

Þetta er sérstakur leikur fyrir okkur alla. Hann er á þjóðhátíðardaginn og er um leið síðasti leikur okkar fyrir sumarfrí eftir langa og stranga törn í 11 mánuði. Allir leikmenn eru staðráðnir í að gera sitt allra besta og vonandi tekst það," sagði Guðjón Valur Sigurðsson.

Serbar telja að lykillinn að því að slá íslenska landsliðið úr keppni sé að stöðva Ólaf Stefánsson. Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari segir landsliðið vera undir það búið að Serbar muni reyna það. Slíkt hafi verið reynt áður og komi ekki á óvart.

Sjá nánar um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert