„Varnarleikurinn var lengst af betri í dag en hann hefur verið til þessa á undirbúningstímanum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, fáeinum mínútum eftir að flautað var til leiksloka í sigurleik Íslands á Spáni, 30:27, á æfingamóti í Bercy-höllinni í Frakklandi.
„Við áttum í erfiðleikum með vörnin fyrstu tíu mínútur leiksins en síðan batnaði hún verulega. Þá var markvarslan mjög góð. Björgvin Páll varði 21 skot, þar af 14 í síðari hálfleik.
Sóknarleikurinn gekk vel lengstum en það komu kaflar þar sem við vorum full staðir í sókninni og boltinn var ekki á nógu mikilli hreyfingu. Fyrir vikið náðu Spánverjar að neyða okkur á tíðum í skjóta úr slökum færum. En að öðru leyti gekk sóknarleikurinn vel og hraðaupphlaupin í fyrri hálfleik voru mjög góð,“ sagði Guðmundur. Hann var óánægður með hversu oft íslensku leikmennirnir létu reka sig út af en alls voru þeir utan vallar í 16 mínútur. „Það er eitthvað sem við verðum að skoða," sagði Guðmundur sem var að vonum ánægður með sigurinn.
Álaginu dreift milli manna
Hreiðar Guðmundsson, Logi Geirsson, Vignir Svavarsson, Ólafur Guðmundsson og Sturla Ásgeirsson komu lítið og jafnvel ekkert við sögu í leiknum í dag. Þá var Aron Pálmarsson ekki á leikskýrslu en hann kennir sér eymsla í hné. Guðmundur segir að allir þessi leikmenn fái tækifæri í leiknum á morgun, hvort heldur leikið verður við Frakka eða Brasilíumenn.
„Þeir fá allir sín tækifæri á morgun og þá fá aðrir sem voru undir meira álagi í dag að hvíla sig. Ég ákvað fyrir nokkru að dreifa álaginu á milli leikmanna í þessum tveimur leikjum burt séð frá því hverjir mótherjarnir verða. Þar með fá allir sín tækifæri," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.