FH-ingurinn ungri Ólafur Guðmundsson hvílir í kvöld þegar Íslendingar mæta Serbum í fyrsta leiknum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Linz í kvöld. Í fyrsta sinn á stórmóti í handbolta er leyfilegt að vera með alla 16 leikmennina á skýrslu en Guðmundur ákvað að tilkynna aðeins 15 nöfn á leikskýrsluna fyrir leik kvöldsins.
,,Ég ákvað hvíla Ólaf í leiknum í kvöld en hann getur svo komið inn í hópinn í næsta leik. Við þurfum að sjá eftir leikinn í kvöld hvernig ástandið er á mönnum og því fannst mér réttast að halda öllum möguleikum opnum. Mér finnst þetta góð breyting að geta verið með svo marga menn á skýrslu og þar með er hægt að dreifa álaginu,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari við mbl.is.
Landsliðið er þessa stundina á léttri æfingu. ,,Það er gott að fá smá hreyfingu á mannskapinn og svo þurfum við að fara yfir nokkur varnarafbrigði. Við erum vel tilbúnir í átökin í kvöld og strákarnir ætla að selja sig dýrt,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur sagði jákvætt að bæði Logi Geirsson og Aron Pálmarsson séu búnir að hrista af sér meiðslin. ,,Þeir eru báðir tilbúnir í leikinn í kvöld og það er bara mjög jákvætt. Logi fann ekkert fyrir öxlinni í gær og Aron hafði gott af hvíldinni um helgina og klár í baráttuna,“ sagði Guðmundur.
Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 19.15 að íslenskum tíma og verður leiknum lýst í beinni textalýsingu hér á mbl.is.