,,Við gjörsamlega köstuðum frá okkur sigrinum og mér líður eins og að hafa tapað með tíu marka mun," sagði Snorri Steinn Guðjónsson leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik við mbl.is eftir jafnteflið við Serba á Evrópumótinu í handknattleik í kvöld.
Snorri fékk gullið tækifæri til að tryggja Íslendingum sigurinn þegar hann tók vítakast þegar leiktíminn var liðinn en markvörður Serba varði vítið frá Snorra.
,,Það var auðvitað sárt að nýta ekki vítið. Þetta var bara lélegt víti hjá mér. Við höfðum öll tök á að skilja Serbana eftir í leiknum en við hleyptum þeim alltaf inn í leikinn og í seinni hálfleik fór margt úrskeiðis hjá okkur,“ sagði Snorri.