Guðmundur lagði áherslu á sóknarleikinn

Snorri Steinn lætur vaða á markið á æfingu landsliðsins í …
Snorri Steinn lætur vaða á markið á æfingu landsliðsins í Tips Arena höllinni í Linz. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenska landsliðið í handknattleik æfði nú síðdegis í Tips Arena höllinni í Linz en annað kvöld mæta Íslendingar gestgjöfum Austurríkismanna í öðrum leik sínum í úrslitakeppni Evrópumótsins. Allir leikmenn landsliðsins tóku þátt í æfingunni sem stóð yfir í eina og hálfa klukkustund en í fyrramálið verður létt æfing þar sem allt verður fínpússað fyrir leikinn á móti Austurríki.

,,Við fórum yfir sóknarleikinn og hvað við ætlum að gera í honum í leiknum á morgun og í fyrramálið munum við svo fara yfir varnarleikinn. Það er ánægjulegt að vita til þess að engin meiðsli eru til staðar hjá leikmönnum og það eru bara allir klárir í baráttuna annað kvöld,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari við mbl.is.

Guðmundur segist ætla að taka ákvörðun í fyrramálið hvort hann verði með 16 leikmenn á skýrslu eða 15 í leiknum gegn Austurríkismönnum en 15 voru á leikskýrslunni gegn Serbum í fyrrakvöld. Allir komu þeir við sögu að undanskildum Loga Geirssyni og Sturlu Ásgeirssyni en FH-ingurinn ungi, nýliðinn í hópnum Ólafur Guðmundsson, hvíldi.

Spurður út í úrslit í fyrstu umferð riðlakeppninnar í gær sagði Guðmundur; ,,Það er ekkert sem kemur á óvart lengur. Þetta er orðið svo svakalega jafnt og ógerningur er að spá fyrir um úrslit. Handboltinn hefur aldrei verið jafnari.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert