Héldu líklega að sigurinn væri í höfn

Serbar fagna stiginu í leikslok en Íslendingarnir eru daufir í …
Serbar fagna stiginu í leikslok en Íslendingarnir eru daufir í dálkinn. mbl.is/Kristinn

Saed Hasanefendic, þjálfari serbneska landsliðsins í handknattleik, sagði að líklega hefðu leikmenn íslenska liðsins haldið að sigurinn væri í höfn í leik þjóðanna í gærkvöld þegar fjórum mörkum munaði á liðunum skömmu fyrir leikslok.

Serbar skoruðu fjögur síðustu mörkin og náðu jafntefli, 29:29, eftir að Darko Stanic markvörður varði vítakast frá Snorra Steini Guðjónssyni á lokasekúndu leiksins.

„Við vorum alltof hægir framan af leiknum og það var mikið meiri kraftur í Íslendingunum. Við náðum engum takti í okkar leik. Síðan gerðum við tvær breytingar, Vuckovic og Stankovic komu inná, vörnin styrktist og við vorum grimmari. Og líklega hafa Íslendingarnir haldið að sigurinn væri í höfn hjá þeim," sagði Hasanefendic, sem einnig er þjálfari Róberts Gunnarssonar hjá Gummersbach í Þýskalandi, á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Ég er virkilega ánægður með að við skyldum ná í stig. Við vorum slakir framan af en þjálfarinn hvatti okkur til að gefast ekki upp og það skilað sér að lokum," sagði Nenad Vuckovic, leikmaður Serba.

Serbar mæta Dönum í B-riðli Evrópukeppninnar í Linz annað kvöld en þá leika Íslendingar við Austurríkismenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert