Nóttin var erfið. Það er ekki hægt að segja annað. Ég hugsaði um þetta atvik oft og mörgum sinnum þegar ég lagðist á koddann í gærkvöld," sagði Hreiðar Levy Guðmundsson markvörður íslenska landsliðsins við mbl.is í dag en Hreiðari urðu á mistök þegar Austurríkismenn jöfnuðu metin rétt fyrir leikslok í leik þjóðanna í Linz.
Hvað ætlaðir þú að gera?
,,Ég ætlaði að koma í veg fyrir sendinguna fram völlinn. Það var ekki góð ákvörðun hjá mér. Ég tók eitt skref að leikmanninum en ég sný svo við þegar ég sé hvert boltinn er að fara. Ég náði ekki jafnvæginu og eitt af verstu augnablikunum á ferlinum var að sjá boltann fara í netið. Mér fannst hann vera fimm mínútur á leiðinni,“ sagði Hreiðar.
Hreiðar segist hafa gert rangt með því að vera ekki kyrr í markinu þegar Íslendingar lögðu af stað í síðustu sóknina.
,,Ég er búinn að spila handbolta síðan ég var krakki og ég veit að í þessari stöðu á markvörðurinn að halda sig í markinu. Þetta voru mistök og ég verð bara að eiga við það,“ sagði Hreiðar.