,,Þetta var stórkostlegur leikur hjá liðinu allt frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Það kom smá vondur kafli snemma í fyrri hálfleik en það braut okkur ekkert niður. Við bara tvíefldumst. Okkur var búið að líða illa eftir tvo fyrstu leikina en við fórum vel í gegnum alla hluti og leikmennirnir eiga stórkostlegan heiður fyrir frábæra frammistöðu," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari við mbl.is eftir sigurinn á Dönum á EM í kvöld.
,,Mér fannst við spila varnarleikinn eins og við þekkjum hann. Danirnir hlupu á vegg. Hún small loks saman og sóknarleikurinn var yfirvegaður, markviss og fjölbreyttur. Fyrirfram hefðum við verið afskaplega glaðir með að fara með þrjú stig í milliriðilinn og nú þurfum við bara að byggja ofan á þennan leik og fylgja þessu eftir.
Við tökum gömlu góðu klisjuna, einn leik í einu. Það er ofboðslegur léttir hjá okkur að vera komnir út úr þessu bulli sem við lentum í og nú er það bara frá. Ég var ánægður með að við skyldum bíða með að nota Aron þar til í þessum leik. Danirnir voru ekki búnir að sjá hann og þekktu hann ekki neitt. Hann gerði frábæra hluti fyrir okkur og hann eykur breiddina í liðinu,“ sagði Guðmundur.