„Ég verð að viðurkenna að ég er svekktur með þessa niðurstöðu en líka glaður að við skyldum halda þetta út í lokin og ná stiginu. Við gerðum mistök í vörninni í seinni hálfleik sem kostaði nokkra brottrekstra. Sumir fyrir litlar sakir en líka fyrir klaufaleg brot. Við verðum að læra af því og sennilega kostaði þetta sigurinn," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari við mbl.is eftir jafnteflið við Króata á EM í Vín í dag.
,,Lungann úr leiknum fannst við mér betri aðilinn og mér finnst við hafa átt skilið að vinna. Við gátum hins vegar líka tapað leiknum og ég er afskaplega ánægður hvernig við stóðum vörnina þessa síðustu mínútu.
Tékkarnir þorðu ekki að dæma leiktöf á Króatana eftir að þeir höfðu tekið leikhléið. Oft höfum við fengið mörk á okkur í þessari stöðu en Björgvin varði stórkostlega undir lokin og þá getum við kannski sagt: Eitt stig unnið en ekki eitt stig tapað í þessari stöðu sem við vorum komnir í. Við getum verið stolt af frammistöðu liðsins. Við erum taplausir og erum strax byrjaðir að hugsa um næsta leik,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.