Ísland og Króatía gerðu jafntefli, 26:26, í milliriðli Evrópumeistaramóts karla í handknattleik í dag, í Wiener Stadthalle í Austurríki. Króatar eru þá með 5 stig og Íslendingar 4 stig í tveimur efstu sætum riðilsins.
Ísland var með forystuna nær allan leikinn. Staðan var 15:12 í hálfleik og munurinn hélst 2-4 mörk þar til Króatar náðu að jafna, 23:23, á 56. mínútu. Þeir komust síðan yfir í þrígang á lokakaflanum en Róbert Gunnarsson skoraði glæsilegt jöfnunarmark þegar 50 sekúndur voru eftir af leiknum. Króatar héldu boltanum til leiksloka en þegar 2 sekúndur lifðu af leiknum varði Björgvin Páll Gústavsson langskot á glæsilegan hátt og tryggði Íslandi mjög verðskuldað stig.
Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 8, Snorri Steinn Guðjónsson 6, Róbert Gunnarsson 5, Alexander Petersson 3, Arnór Atlason 2, Aron Pálmarsson 2.
Króatía er með 5 stig, Ísland 4, Noregur 2, Danmörk 2, Austurríki 1, Rússland 0.
Austurríki og Noregur hefja leik klukkan 17.00 og Rússland mætir Danmörku klukkan 19.15.
Á morgun leikur Ísland við Rússland klukkan 15.00.