Rússneski björninn var hann oft kallaður, andstæðingur Íslendinga á Evrópumótinu í handknattleik í dag, en Íslendingar mæta Rússum í öðrum leik sínum í milliriðlinum í Vín klukkan 15 í dag. Rússar hafa unnið öll stórmótin sem keppt er í en hin síðari ár hefur þeim ekki tekist að blanda sér í hóp hinna allra bestu.
Sigur Dana á Rússum í gærkvöld, 34:28, var sannfærandi og er ljóst að Rússar hafa gefið töluvert eftir í harðri samkeppni bestu landsliða Evrópu.
Rússar fögnuðu sigri á Evrópumótinu á Spáni árið 1996 og eru það einu gullverðlaun þeirra á EM en þeir fengu bronsið árið 1994 og í Króatíu árið 2000. Á Evrópumótinu í Noregi fyrir tveimur árum varð 13. sæti hlutskipti Rússa.
Rússar hömpuðu heimsmeistaratitlinum í Japan árið 1997 og er það eini heimsmeistaratitill þeirra. Þeir urðu í öðru sæti í Egyptalandi 1999 en á HM í Króatíu í fyrra gekk Rússum ekki vel og enduðu í 16. sætinu.
Rússar hafa tvívegis komist á verðlaunapall á Ólympíuleikunum. Þeir urðu ólympíumeistarar í Sydney árið 2000 og hrepptu bronsverðlaunin í Aþenu í Grikklandi fjórum árum síðan. Á Ólympíuleikunum í Peking, þar sem Ísland vann silfurverðlaunin, höfnuðu Rússar í sjötta sæti.