EM: Líður eins og svikara

Norðmaðurinn Borge Lund sækir að vörn Dana en til varnar …
Norðmaðurinn Borge Lund sækir að vörn Dana en til varnar er Kasper Nielsen. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Norðmenn eru í sárum eftir ósigurinn gegn Dönum í milliriðli 1 á Evrópumótinu í handknattleik í Vínarborg í gærkvöld. Norðmenn höfðu undirtökin allan tíman en Danir náðu að komast einu sinni yfir og það var með marki úr vítakasti sem Anders Eggert Jensen skoraði úr tveimur sekúndum fyrir leikslok. Rétt áður hafði Kasper Hvidt markvörður Dana varið vítakast frá Håvard Tvedten.

,,Þetta er eins og að tapa úrslitaleik á Ólympíuleikunum og á HM á sama tíma. Mér finnst ég hafa svikið félaga mína og mér líður eins og ég hafi syndgað,“ sagði Håvard Tvedten eftir leikinn en hornamaðurinn lét Kasper Hvidt verja frá sér vítakast mínútu fyrir leikslok.

,,Þetta var frábær markvarsla hjá Hvidt,“ sagði Svíinn Robert Hedin þjálfari Norðmanna. ,,Þetta er afskaplega svekkjandi. Við vorum með leikinn í rúmar 59 mínútur og fengum gullið tækifæri til að innsigla sigur en náðum ekki að nýta víti,“ sagði Hedin.

Norðmenn og Íslendingar eigast við í lokaumferð milliriðilsins á morgun. Með jafntefli tryggja Íslendingar sér sæti í undanúrslitunum en möguleikar Norðmanna felast í því að þeir vinni Íslendinga með minnst fjögurra marka mun og Danir tapi fyrir Króötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert