Eftir úrslit gærdagsins í Evrópukeppninni í handknattleik í Austurríki er ljóst að Íslandi dugar jafntefli gegn Norðmönnum á morgun til að komast í undanúrslit mótsins. Íslenska liðið ætti jafnvel möguleika þótt leikurinn myndi tapast með eins til þriggja marka mun en væri endanlega úr leik með fjögurra marka ósigri.
Möguleikarnir í stöðunni eru sem hér segir:
* Ef Ísland sigrar Noreg er liðið komið í undanúrslit og vinnur riðilinn, nema Króatar sigri Dani síðar um kvöldið.
* Ef Ísland gerir jafntefli við Noreg hafnar liðið í öðru sæti og er öruggt í undanúrslit. Íslenska liðið má enda með sama stigafjölda og bæði Króatar og Danir, vegna sigursins á Dönum og þar sem liðið er með mun betri markamismun en Króatar.
* Ef Ísland tapar fyrir Noregi með eins til þriggja marka mun þarf að bíða eftir leik Króata og Dana um kvöldið. Þá verða Króatar þegar komnir í undanúrslit, en verða að vinna Dani til að taka Íslendinga með sér þangað. Ef leikurinn endar með jafntefli eða dönskum sigri er Ísland úr leik.
* Ef Ísland tapar fyrir Noregi með fjögurra marka mun eða meira hefur liðið örugglega lokið keppni. Þá komast Norðmenn í undanúrslit ef Króatar vinna Dani.
Möguleikar hinna þjóðanna:
Króatar þurfa eitt stig úr leiknum við Dani til að fara í undanúrslit, nema Norðmenn vinni Íslendinga fyrr um daginn. Þá verða Króatar komnir áfram áður en leikur þeirra við Dani hefst.
Danir þurfa að sigra Króata til að komast í undanúrslilt, ef Íslendingar vinna Norðmenn, eða leikurinn endar með jafntefli. Dönum nægir hinsvegar jafntefli ef Íslendingar tapa fyrir Norðmönnum. Danir mega aldrei tapa leiknum við Króata.
Norðmenn verða að vinna Ísland með minnst fjórum mörkum og treysta síðan á að Króatar vinni Dani.