Íslenska landsliðið mætir því norska í lokaumferð milliriðilsins á Evrópumótinu í handbolta í Vínarborg í dag klukkan 15. Jafntefli í þeirri viðureign tryggir Íslandi sæti í undanúrslitum keppninnar.
Róbert Gunnarsson sagði við Guðmund Hilmarsson, íþróttafréttamann Morgunblaðsins og mbl.is, að norska liðið væri mjög áþekkt því íslenska og danska að styrkleika. Norðmenn ættu möguleika á að komast áfram og yrði mjög erfiðir andstæðingar.
Róbert hefur vakið athygli fyrir mögnuð tilþrif á línunni en hann hefur skorað nokkur hálfgerð sirkusmörk í leikjum Íslands. Guðmundur spurði hann um tildrögin að þessum óvenjulegu tilburðum.