,,Við erum leggja lokaundirbúninginn á undirbúninginn fyrir leikinn á móti Frökkunum. Við erum með nokkrar hugmyndir sem við ætlum að útfæra og förum yfir það á æfingunni," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari við mbl.is rétt fyrir æfingu landsliðsins í Vín í dag en á morgun mæta Íslendingar heims- og ólympíumeisturum Frakka í undanúrslitum Evrópumótsins.
,,Við vitum að við þurfum að spila vel en við getum unnið þá á góðum degi. Frakkar eru með hörkugott lið en við höfum það líka. Við mætum óhræddir í þennan slag,“ sagði Guðmundur Þórður við mbl.is en flautað verður til leiks í viðureign Íslendinga og Frakka kukkan 13 að íslenskum tíma á morgun.
Eins og fólki ætti að vera í fersku minni töpuðu Íslendingar fyrir Frökkum í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking fyrir einu og hálfu ári síðan.
Ítarlegra viðtal verður við Guðmund í Morgunblaðinu á morgun.