,,Þetta var hörkuleikur en við vorum skrefinu á eftir Íslendingum nær allan tímann. Í leikjunum fimm á undan þessum leik var vörnin hjá okkur góð og stöðug en íslenska liðið náði að opna vörnina og það spilaði að mínu mati glæsilegan handbolta," sagði Borge Lund, leikstjórnandi norska landsliðsins, við Morgunblaðið eftir tapið gegn Íslendingum á EM í gær.
Það er engin skömm að tapa fyrir svona góðu liði en ég var ánægður með baráttuna hjá okkur. Við reyndum allt sem við gátum,“ sagði Borge Lund, samherji Arons Pálmarssonar hjá þýska meistaraliðinu Kiel.
,,Ég er hrifinn af íslenska liðinu. Það komst í að spila um gullverðlaunin á Ólympíuleikunum og það getur alveg gerst aftur. Ísland hefur frábæru liði á að skipa. Það spilar af miklu sjálfstrausti og árræði og andinn í liðinu er virkilega góður. Ef liðið heldur áfram á þessari braut þá tel ég það eiga möguleika á að spila til úrslita á mótinu,“ sagði Borge Lund, sem var valinn besti leikmaður Norðmanna en Ólafur Stefánsson fékk þá viðurkenningu í íslenska liðinu.