Sérstakir varnarmenn úr sögunni?

Sverre Jakobsson er einn besti varnarmaður heims en svo gæti …
Sverre Jakobsson er einn besti varnarmaður heims en svo gæti farið að reglum yrði breytt í handboltanum til þess að koma í veg fyrir að leikmenn geti skipt útaf í vörn og sókn. mbl.is/Kristinn

Øystein Havang, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs í handknattleik, segist óttast þá þróun sem átt hafi sér stað í handknattleiknum síðustu ár þar sem landslið hafi lagt aukna áherslu á að koma sér upp sérstökum varnarmönnum. Þeir séu stórir og sterkir og komi helst ekkert nærri sóknarleik. Havang óttast þessa þróun og segir hana geta þegar fram líða stundir útlokað litla og lipra leikmenn frá handknattleik. Eins telji hann að með sérstökum varnarmönnum geti sá möguleiki opnast að menn fari að styrkja sig með aðstoð ólöglegra lyfja sem handknattleikur hafi verið blessunarlega laus við fram til þessa.

Havang segir í samtali við Aftenposten að hann telji þróunina með varnarmennina vera af hinu slæma. Vissulega hafi sterkir varnarmenn verið í íþróttinni þegar hann var upp á sitt besta, en alls ekki í sama mæli og nú. Þá hafi hraðinn í íþróttinni aukist og hraðaupphlaupum fjölgað til muna.

Havang vill að brugðist verði við þessari þróun með breyttum reglum þannig að lið geti ekki skipt leikmönnum út af nema þegar þau hafi boltann. Hafi andstæðingurinn knöttinn sé ekki mögulegt að skipta inn á. Þar með verði ekki hægt að senda til leiks sérstaka varnarmenn. Havang segist hafa orðið vitni að því á EM í Austurríki að sum lið hafi skipt þremur leikmönnum út milli varnar og sóknar.

Rætt er við Guðmund Þórð Guðmundsson landsliðsþjálfara í handknattleik, um vangaveltur Havangs. Guðmundur segir ekki hægt að bera saman Ísland og Þýskaland í þessum efnum. Á Íslandi stundi um 4.000 manns handknattleik en í Þýskalandi sé þessi fjöldi um 900.000. Guðmundur segist hinsvegar geta tekið undir með Havang um að banna mætti mönnum að skipta inn á sérstökum varnarmönnum og sóknarmönnum í yngri flokkum handknattleiks. Þar eigi þessi skipti ekki að sjást því nauðsynlegt sér að allir kynnist öllum hliðum íþróttarinnar, jafnt í vörn sem sókn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert